Golf

Birgir Leifur deilir fimmta sæti fyrir lokahringinn á Spáni

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Birgir Leifur hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari í höggleik.
Birgir Leifur hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari í höggleik. Mynd/GSÍ
Birgir Leifur lauk leik rétt í þessu á þriðja leikdegi á úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina á tveimur höggum undir pari og alls átta höggum undir pari að þremur dögum loknum.

Um er að ræða annað stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golfi en Birgir Leifur komst beint inn á annað stig mótsins vegna árangurs síns á Áskorendamótaröð Evrópu í ár.

Birgir Leifur deildi fimmta sæti fyrir þriðja hringinn á sex höggum undir pari en hann náði sér ekki jafn vel á strik á öðrum leikdegi eftir að hafa leikið á fimm höggum undir pari á fyrsta degi.

Birgir hóf hringinn í dag vel en hann fékk tvo fugla á fyrstu þremur holunum og alls þrjá fugla og einn skolla á fyrri níu holunum.  

Birgir hóf seinni níu holurnar vel,  krækti í tvo fugla á fyrstu fimm holunum og einn skolla en fékk annan skolla á 17. holu og lauk seinni níu holum dagsins á pari.

Takist Birgi að komast áfram á mótinu á morgun fær hann keppnisrétt á lokaúrtökumótinu sem fer fram þann 14-19. nóvember næstkomandi á Spáni.

Birgir Leifur hefur í tvígang komist inn á Evrópumótaröðina sem er næst sterkasta atvinnumannamótaröð heimsins á eftir PGA-mótaröðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×