Innlent

Bílastyrkur til sveitarstjóra fimmfaldast

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ágúst Sigurðsson.
Ágúst Sigurðsson. Vísir/GVA
Ágúst Sigurðsson, fráfarandi rektor Landbúnaðarháskóla Íslands og nýkjörinn sveitarstjóri í Rangárþingi ytra, fær greiddan bílastyrk sem svarar til aksturs 2000 kílómetra á mánuði. Um tæpa fimmfalda hækkun bílastyrks er að ráða frá því sem áður var að sögn minnihlutans í þinginu.

Á öðrum fundi nýrrar hreppsnefndar í gær lagði minnihlutinn fram breytingartillögu á ráðningarsamningnum við Ágúst.

„Þar sem sveitafélagið á og rekur bifreið sem sveitarstjóri hefur afnot af teljum við óeðlilegt að greiða sveitarstjóra fyrir 2000 kílómetra (um 230 þúsund krónur) á mánuði,“ segir greinargerð minnihlutans í fundargerðinni. Meðalrekstrarkostnaður við bílinn undanfarin ár hafi verið um 478 þúsund á ári en með breyttum bílastyrk upp á 2000 kílómetra akstur yrði kostnaður við akstur sveitarstjóra þingsins 2,3 milljónir króna. Um tæpa fimmföldun í kostnaði er að ræða.

Þá gagnrýnir minnihlutinn breytingu er snýr að búsetu sveitarstjóra. Áður hafi verið grein í ráðningarsamningi við sveitarstjóra þar sem kveðið var á um að sveitarstjóri skuli á ráðningartímanum hafa lögheimili og fasta búsetu í Rangárþingi ytra.

„Þykir fulltrúum Á-lista óeðlilegt að fella þessa grein út í ráðningarsamningi sveitarstjóra nú,“ segir í greinargerð minnihlutans. Ágúst hefur lögheimili í þinginu en búsetu utan þess.

Báðar tillögur minnihlutans voru felldar með fjórum atkvæðum meirihlutans gegn þremur atkvæðum minnihlutans. Auk þess var ráðningarsamningur við fráfarandi sveitarstjóra, Drífu Hjartardóttur, framlengdur um einn mánuð eða út ágúst. Drífa verður Ágústi til halds og trausts fyrsta mánuðinn í nýju starfi.

Minnihlutinn færði til bókar að með því yrðu tveir sveitarstjórar á launum þann mánuðinn. Það gæti minnihlutinn ekki samþykkt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×