Innlent

Biðin setur ferðaþjónustuna á hausinn

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Algjört neyðarástand ríkir í ferðaþjónustunni vegna lokunar hringvegsins, en umferð verður ekki komið á fyrr en í fyrsta lagi eftir tvær vikur. Biðin setur greinina á hausinn segir framkvæmdastjóri Samtaka Ferðaþjónustunnar.

Það mun taka Vegagerðina tvær til þrjár vikur að setja upp bráðabirgðabrú frá Vík austur yfir Mýrdalssand, en stefnt er að því að hefja byggingu hennar eftir helgi. Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka Ferðaþjónustunnar, furðar sig á að stjórnvöld hafi ekki ráðist strax í verkið.

„Ferðir um hringveginn eru stærsta söluvara ferðaþjónustunnar yfir háannartímann. Þarna eru þúsundir manns á ferðinni og allt stopp," segir Erna. Hún segir að fréttirnar af seinaganginum þegar hafa spurst út.

„Það verður auðvitað bara til þess að menn fara að afbóka eftir helgi og það er nú þegar byrjað," segir hún.

Hún segir áætlanir stjórnvalda um að opna leiðin eftir tvær til þrjár vikur fráleitar. Nauðsynlegt sé að flýta verkinu, annars stefni ferðaþjónustan hreinlega í gjaldþrot.

„Það er ekki hægt að lifa þetta af, ef að þrjár helstu háannavikurnar í ferðaþjónustu munu að stórum hluta eyðileggjast."

Ferðamenn geta valið Fjallabaksleiðina til að komast leiðar sinnar, en hún er þó ekki fær fólksbílum. Erna segir mjög stóran hluta ferðamanna vera á smábílum og að margar rútur séu ekki hannaðar fyrir þessa leið. Þá mun Fjallabaksleiðin aldrei geta annað þessari miklu umferð. Erna telur að stjórnvöld verði að leita til verktaka, treysti Vegagerðin sér ekki til að flýta framkvæmdunum.

„Það mætti vera leið sem þarf að keyra mjög hægt. Það eru ýmsar lausnir til og það verður bara að leita til allra þeirra sem að mögulega treysta sér til að koma henni á," segir hún að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×