Innlent

Bhutan setur hamingju og sjálfbærni á oddinn

Kristín Vala Ragnarsdóttir með tveimur samstarfskonum sínum
Kristín Vala Ragnarsdóttir með tveimur samstarfskonum sínum
Smáríkið Bhutan í Himalayafjöllunum, þar sem íbúar eru um 740.000, hefur sett sér metnaðarfullt markmið. Pema Gyamtsho, landbúnaðarráðherra landsins greindi nýverið frá því að Bhutan stefndi á að verða fyrsta landið í heiminum þar sem öll ræktun matvæla er algerlega lífræn. Samhliða þessari ákvörðun hefur sala á meindýraeitri og illgresiseyði verið bönnuð. Gert er ráð fyrir að Bhutan takist með lífrænum landbúnaði að auka framleiðslu sína frekar en hitt og flytja framleiðsluvörur sínar út til nágrannalanda eins og Indlands og Kína.

Bhutan liggur í fjalllendi og því hefur þessi ákvörðun það í för með sér að minni mengun kemur frá landinu, því eiturefni í landbúnaði skolast í burtu með regni og geta mengað vatnsból og gróður á þeim svæðum, sem í þessu tilviki liggja neðar. „Við þurfum að hafa allt umhverfið í huga," segir Gyamtsho, „en sem betur fer yrkja flestir bændur hér landið eftir gömlu hefðbundnu aðferðunum, svo við höfum að mestu leytið stundum lífrænan landbúnað hingað til."

Einn af helstu ráðgjöfum ríkisstjórnar Bhutan í sjálfbærri vistfræðilegri þróun er Dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor við Háskóla Íslands. Hún segir að Bhutan stefni ekki einungis að lífrænum landbúnaði, heldur einnig að því að auka hamingju og jafnræði landsmanna og skapa jafnvægi á milli íbúa landsins og jarðarinnar sem þeir yrkja.

Dr. Kristín Vala hefur um langt skeið stundað alþjóðlegar rannsóknir á jarðvegi, en hann er næst á eftir vatni okkar mikilvægasta náttúruauðlind. Hún nýtur mikillar virðingar innan vísindasamfélagsins og var kosin í Vísindafélag Evrópu 2012 (Academia Europaea).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×