Innlent

Betra seint en aldrei að jafna hlut kynjanna í kvikmyndum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Anna María Karlsdóttir
Anna María Karlsdóttir Fréttablaðið/Ernir
„Ég myndi segja að þetta væri mjög eðlilegt. Þetta hefði auðvitað átt að vera svona frá stofnun Kvikmyndasjóðs – en betra er seint en aldrei,“ segir Anna María Karlsdóttir, fulltrúi Samtaka íslenskra kvikmyndaframleiðenda í Kvikmyndaráði, sem er mennta- og menningarmálaráðherra til ráðgafar um málefni kvikmynda.

Í nýundirrituðu samkomulagi um stefnumótun í íslenskri kvikmyndagerð segir að tryggja eigi jafnan hlut karla og kvenna í styrkveitingum Kvikmyndasjóðs. Meðal annars verði það gert með því að veita tímabundið sérstaka handrita-, þróunar- og framleiðslustyrki til kvenna í greininni.

Miklar umræður um kynjakvóta á úthlutanir úr Kvikmyndasjóði hafa staðið lengi – og fjölmargir innan greinarinnar viðrað skoðanir sínar um að slíkir kvótar eigi rétt á sér. Aðrir í faginu hafa stigið fram og sagst vera mótfallnir slíkum aðgerðum.

Baltasar Kormákur lagði svo til í föstudagsviðtali Fréttablaðsins í júní í fyrra að framlög til sjóðsins yrðu aukin, potturinn stækkaður og allt sem umfram væri færi til kvenna í kvikmyndagerð. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði í kjölfarið að sér þættu rökin sannfærandi og hann væri tilbúinn til að setja á tímabundinn kvóta við úthlutanir úr sjóðnum.

Rök þeirra sem hafa viljað setja á kynjakvóta við úthlutanir úr Kvikmyndasjóði hafa verið sú að nokkuð auðveldara sé fyrir karlmenn í kvikmyndagerð að fjármagna verk sín, þar sem þeir hafi fengið umtalsvert meiru úthlutað í gegnum tíðina og þar af leiðandi getað búið til fleiri kvikmyndir og efni fyrir sjónvarp. Slíkt skapi snjóboltaáhrif.

Þannig skipti höfuðmáli að fleiri verk eftir konur verði til, því reynsla og fyrri verk spila gjarnan stóra rullu þegar umsóknir til Kvikmyndasjóðs eru metnar.

Mennta- og menningarmálaráðherra segist mjög ánægður með að samkomulagið hafi verið undirritað. „Ég er líka mjög ánægður með að það hafi náðst sátt um þessar áherslur og þessa aðferðafræði í samkomulaginu. Við vildum grípa til þessara ráðstafana til þess að við getum fengið jafnt notið hæfileika karla og kvenna í þessari listgrein,“ útskýrir Illugi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×