Innlent

Berskjölduð fyrir áföllum í ferðaþjónustunni

Una Sighvatsdóttir skrifar
Ingólfur Bender forstöðumaður greiningardeildar
Ingólfur Bender forstöðumaður greiningardeildar
Vöxturinn í ferðaþjónustu á Íslandi er ævintýralegur. Ríflega eitt af hverjum þremur störfum sem skapast hafa síðustu fimm ár eru í ferðaþjónustu og hún er orðinn ein af grunnstoðum gjaldeyrisöflunar, því þriðja árið í röð má búast við að ferðaþjónusta eigi stærri hlut en bæði sjávarútvegur og ál í heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins, tæplega 428 milljarða eða 34%. (MYND 19). Ferðaþjónusta vegur þess vegna þyngra í gjaldeyrissköpun hagkerfisins hér en í flestum öðrum löndum.



Vexti ferðaþjónustunnar fylgir meiri fjölbreytileiki í efnahagslífinu, sem ætti að auka stöðugleika í efnahagslífinu til lengri tíma litið. En þetta er viðkvæm jafnvægislist því þetta mikla umfang ferðaþjónustunnar þýðir líka að íslenska hagkerfið er viðkvæmara fyrir áföllum í greininni. Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, segir ljóst að þessi vöxtur muni ekki vara að eilífu. Íslandsbanki gaf í dag út skýrslu greiningardeildarinnar um íslenska ferðaþjónustu

„Það mun hægja á honum og við munum ná einhverju jafnvægi. Niðursveiflur í þessum geira hér á landi myndi ég helst tengja við náttúruhamfarir, eða einhvers kona efnahagsniðursveiflur í löndunum í kringum okkur eða hér heima. Ég held að það sé fyrst og fremst það sem við þurfum að hafa áhyggjur af og búa okkur undir. Þau áföll munu koma, og það er bara spurning um hvenær,“ segir Ingólfur.

Hagkerfið næmt fyrir efnahagsþróun í löndum ferðamannanna

Dæmin eru nærtæk. Árið 2010 fjölgaði ferðamönnum á heimsvísu en fækkaði á Íslandi, vegna elgossins í Eyjafjallajökli. Heimskreppan 2008 olli því sömuleiðis að fjöldi ferðamanna dróst saman bæði á Íslandi og á heimsvísu. Þá ræður gengisþróun gjaldmiðla miklu um ferðamannastrauminn. Bretar njóta nú hagsveiflu upp á við og ferðast meira fyrir vikið og Bandaríkjamönnum hefur fjölgað um heil 500% frá árinu 2008 meðal annars vegna styrkingu dollars.

Íslenska hagkerfið er því næmt fyrir efnahagsþróun þeirra landa sem ferðamennirnir koma frá. Ingólfur segir að gæta þurfi þess að tengja ferðaþjónustuna við fjölda þjóða og að einhæfni verði ekki of mikil.

„Hvað varðar náttúruhamfarirnar gæti þetta orðið erfiðara því Ísland er eldfjallalandog við erum að taka 90% af ferðamönnum hér í gegnum einn flugvöll, það í sjálfu sér er áhættufaktor, sérstaklega þegar maður er kominn með svona stóran hluta af gjaldeyrissköpun þjóðarinnar í þessa grein. Þannig að Þetta er eitthvað sem við þurfum að hugsa um með hvaða hætti við getum dreift þessu betur og búið okkur undir þessi áföll sem eflaust verða einhvern tíma. Við getum alveg garanterað það og passað okkur á að efnahagslífið verði ekki of berskjaldað fyrir því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×