Enski boltinn

Benitez dreymir um að komast aftur á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Benitez.
Rafael Benitez. Mynd/AFP
Rafael Benitez, fyrrum stjóri Liverpool saknar mikið tímans á Anfield og dreymir um að fá annað tækifæri hjá félaginu. Benitez hætti sem stjóri Liverpool í lok síðasta timabils en hann var þá búinn að vera þar í sex ár.

Benitez fór til Inter Milan þar sem hann tók við af Jose Mourinho áður en Rafa var síðan rekinn á miðju tímabili. Benitez hefur síðan verið atvinnulaus síðan í desember.

Kenny Dalglish hefur staðið sig frábærlega síðan að hann tók við Liverpool-liðinu af Roy Hodgson í janúar og það bendir allt til þess að Dalglish fái að halda áfram með liðið næstu árin.

„Ég er mjög stoltur af því að hafa verið stjóri Liverpool Football Club og ég hefði mikinn áhuga á því að koma þangað aftur í framtíðinni. Það er samt aldrei að vita hvernig þetta þróast því Kenny er að standa sig frábærlega. Hver veit nema að eitthvað breytist," sagði Rafael Benitez við Sky Sports News.

„Það væri draumur að rætast ef ég fengi annað tækifæri og ég yrði mjög ánægður að fá að koma til baka. Stuðningsmenn Liverpool vita líka hvaða félög ég færi aldrei til án þess að ég nefni þau á nafn. Ég held hvort sem er að þau myndu aldrei bjóða mér starf," sagði Benitez og á þar væntanlega við Everton og Manchester United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×