Viðskipti innlent

Benedikt segir sig úr stjórn Nýherja

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Benedikt Jóhannesson er á lista yfir stærstu hluthafa og hefur setið í stjórn fyrirtækisins í 22 ár.
Benedikt Jóhannesson er á lista yfir stærstu hluthafa og hefur setið í stjórn fyrirtækisins í 22 ár. Vísir/Ernir
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og nýbakaður þingmaður, hefur sagt af sér stjórnarformennsku í Nýherja.

Þetta kemur fram í tilkynningu Nýherja til kauphallar en þar segir að gert sé ráð fyrir því að ákveðið verði hver muni taka við stjórnarformennnsku á næsta stjórnarfundi.

Benedikt er á lista yfir stærstu hluthafa Nýherja og á hann 1,3 prósent í fyrirtækinu. Hefur hann setið í stjórn félagsins í 22 ár þar af lengst af sem stjórnarformaður.

„Það er missir af Benedikt úr stjórn en hann skilar nú af sér góðu búi í traustu félagi. Fyrir hönd samstarfsfólks hjá Nýherja kann ég honum allra bestu þakkir fyrir frábært samstarf og stuðning við félagið í gegnum árin. Við óskum honum alls hins besta á nýjum vettvangi,“ er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Nýherja í tilkynningu fyrirtækisins til kauphallar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×