Körfubolti

Bekkur Keflavíkurliðsins í mínus í fyrsta sinn í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tindastólsmaðurinn Svavar Atli Birgisson skilaði 7 stigum og 5 fráköstum af bekknum.
Tindastólsmaðurinn Svavar Atli Birgisson skilaði 7 stigum og 5 fráköstum af bekknum. Vísir/Andri Marinó

Tindastóll varð í gær fyrsta liðið til að vinna Keflavík í Domino´s deild karla í vetur þegar Stólarnir unnu sex marka sigur á toppliði Keflavíkur, 97-91, í Síkinu á Sauðárkróki.

Mikið hefur verið talað um framlagið frá Keflavíkurbekknum í upphafi mótsins en liðið var fyrir leikinn í gær búið að fá 35,1 stig eða meðaltali í leik frá bekknum sínum.

Bekkur Keflavíkurliðsins var ennfremur búinn að skila 149 stigum meira en bekkur mótherjanna í fyrstu sjö umferðunum en það þýðir að Keflavíkurliðið hafði að meðaltali fengið 21,3 fleiri stig frá bekknum heldur en andstæðingarnir.

Bekkur Keflvíkinga hafði unnið stigabaráttuna við bekk mótherjanna með tólf stigum eða meira í öllum leikjum liðsins í fyrstu sjö umferðunum. Breiddin átti því án efa mikinn þátt í sjö sigrum Keflavíkurliðsins í röð.

Stólarnir fengu hinsvegar fleiri stig inn af bekknum í gær, það munaði reyndar bara einu stigi, en þetta er engu að síður mikil breyting frá fyrri leikjum vetrarins.  Keflvíkingar urðu líka á endanum að kynnast taptilfinningunni í fyrsta sinn.

José María Costa, nýr þjálfari Tindastóls, breytti byrjunarliðinu sínu en ungu strákarnir Ingvi Rafn Ingvarsson og Viðar Ágústsson byrjuðu báðir í fyrsta sinn í Domino´s deildinni í vetur.

Costa gerði alls þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá því í tapleiknum á móti Snæfelli. Arnþór Freyr Guðmundsson, Helgi Rafn Viggósson og Darrell Flake fóru allir á bekkinn og Jerome Hill var aftur kominn í byrjunarliðið.

Annars var það meiri lítið framlag frá bekk Keflvíkinga sem réði því að þeir fengu færri stig af bekknum en Stólarnir. Magnús Þór Gunnarsson skoraði reyndar 11 stig en aðrir varamenn liðsins voru bara með sjö stig saman.

Nettó í stigum frá bekk í leikjum Keflavíkur:

104-101 sigur á Þór:  +21 (37-16)

109-104 sigur á Haukum: +14 (27-13)

94-84 sigur á Njarðvík: +24 (41-17)

99-69 sigur á Hetti: +32 (46-14)

96-87 sigur á Snæfelli: +12 (24-12)

101-94 sigur á Grindavík: +25 (44-19)

89-81 sigur á KR: +21 (27-6)

91-97 tap fyrir Tindastól: -1 (18-19)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×