Viðskipti innlent

Beitir NK með stærsta loðnufarm sögunnar

Svavar Hávarðsson skrifar
Beitir NK fékk rúmlega 3.000 tonn á 13 tímum – sem varla verður leikið eftir í bráð.
Beitir NK fékk rúmlega 3.000 tonn á 13 tímum – sem varla verður leikið eftir í bráð. Mynd/KristínSvanhvít
Stærsti loðnufarmur sem íslenskt skip hefur borið til hafnar á Íslandi kom til Neskaupstaðar í nótt, en þá kom Beitir NK í heimahöfn með rúmlega 3.000 tonn. Beitir fyllti sig á loðnumiðunum á aðeins þrettán klukkutímum sem er til marks um þá veislu sem loðnusjómenn eru í þessa dagana.

Í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar, en Beitir NK er eitt skipa hennar, segir að ef farið sé 20 ár aftur í tímann megi sjá að þessi farmur Beitis jafngildir fullfermi fimm minnstu loðnuskipanna sem þá voru í viðskiptum við Síldarvinnsluna. Ef hins vegar er farið tíu ár aftur í tímann jafngildir Beitisfarmurinn fullfermi þriggja minnstu skipanna. Megi á þessu sjá hver þróun loðnuflotans hefur verið síðustu áratugi.

Í viðtali við skipstjórann á Beiti, Tómas Kárason, kemur fram að þessi mikli afli fékkst í aðeins fjórum köstum, og kannað yrði hvort unnt yrði að vinna hrogn úr farminum – sem eru verðmætasta afurðin.

„Það er mjög mikið af loðnu að sjá og ég hef aldrei tekið þátt í svona loðnuveiði. Svo er loðnan líka svo stór og falleg,“ segir Tómas í viðtalinu. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×