Innlent

Bein leið milli Íslands og Kína um Norðurskautið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ísland og Kína verða nágrannaríki á næstu fimm til tíu árum með opnun siglingaleiðarinnar yfir Norðurskautið, segir kínverskur sérfræðingur í alþjóðasamskiptum. Hann segir bæði Íslendinga og Kínverja hagnast á tækifærunum.

Norðurskautsráðið er um þessar mundir undir forystu utanríkisráðherra Svía, Carl Bildt, og hann var meðal gesta á alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík í dag undir yfirskriftinni Áskoranir og tækifæri á Norðurslóðum.

Einna mesta athygli vakti erindi frá Kína en Dr. Jiang Ye, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Sjanghæ, lýsti viðhorfum Kínverja til málefna heimskautsins. Hann segir siglingu kínverska ísbrjótsins Snædrekans milli Sjanghæ og Reykjavíkur í fyrra marka tímamót og spáir því að eftir fimm til tíu ár verði skipafélög farin að nýta þessa nýju siglingaleið í ábataskyni.

„Samband Kínverja og Íslendinga er mjög gott og þegar þessi siglingaleið opnast verðum við nágrannar," segir Jiang Ye í samtali við Stöð 2.

„Það verður bein leið frá Sjanghæ til Reykjavíkur og frá Reykjavík til Sjanghæ."

Dr. Jiang Ye, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunarinnar í Sjanghæ, á Norðurslóðaráðstefnunni á Hótel Sögu í dag.Mynd/Björn Sigurðsson.
Hann telur þessa tengingu bjóða upp á samstarf þjóðanna á mörgum sviðum, eins og vísinda og siglinga.

„Og síðast en ekki síst munum við hafa samvinnu á viðskiptasviðinu. Báðir aðilar munu græða, þetta verður hagur beggja landanna," segir Jiang Ye.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×