Erlent

Beið í símanum í 27 mínútur á meðan 90 hermenn létu lífið

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðal annars voru árásir gerðar með F-16 þotum.
Meðal annars voru árásir gerðar með F-16 þotum. Vísir/AFP
Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna segja mistök hafa leitt til þess að loftárásir voru gerðar á stjórnarher Bashar al-Assad í Sýrlandi í september. 90 manns létu lífið í árásunum, en herinn stóð í átökum við vígamenn Íslamska ríkisins þegar þær voru gerðar.

Auk flugvéla Bandaríkjamanna voru flugvélar frá Ástralíu, Danmörku og Bretlandi sem tóku þátt í árásunum. Syrian Observatory for Human Rights segir 90 manns hafa fallið, en Bandaríkin segjast eingöngu hafa staðfest að fimmtán hafi fallið. Þó viðurkenna þeir að tala látinna sé líklega mun hærri.

Alls voru gerðar 32 árásir á hermennina.

Flugmennirnir og aðrir sem komu að árásunum töldu að verið væri að ráðast á vígamenn ISIS. Þá leiddu mistök einnig til þess að þegar Rússar notuðu sérstaka samskiptaleið sem var komið fyrir á milli þeirra og Bandaríkjanna, var sá sem svarar Rússum yfirleitt ekki við. Sá sem hringdi frá Rússum þurfti því að bíða á línunni í 27 mínútur samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Meira en helmingur árásanna var gerður á því 27 mínútna tímabili. Þegar hann loks náði í gegn var árásunum hætt samstundis.

Enginn verður ákærður vegna árásanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×