Erlent

Barninu líkt við fórnarlömb Auschwitz

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Börn í fangabúðunum í Auschwitz.
Börn í fangabúðunum í Auschwitz. Vísir/Getty
Fjögurra mánaða gömul stúlka, sem fannst látin á heimili sínu í Tower Hamlets-hverfinu í London, var svo vannærð að hún minnti sjúkraflutningamenn á fórnarlömb úr Auschwitz-fangabúðum nasista. Stúlkan fannst í október í fyrra en móðir hennar hefur játað vanrækslu og það að vera valdur að dauða hennar.

Í frétt BBC kemur fram að sjúkraflutningamenn lýstu því við yfirheyrslur að stúlkan hefði verið mjög vannærð. Hún hafi farið þar af leiðandi verið alltof létt og þjáðst af ofþornun. Stúlkan hafi einnig verið mjög föl og augu hennar djúpt sokkin inn í höfuðkúpuna.

Móðir stúlkunnar er frá Sómalíu. Farið var með hana þangað frá Bretlandi þegar hún var unglingur og hún látin giftast manni í heimalandi sínu.

Starfsmenn breska utanríkisráðuneytisins í Sómalíu hjálpuðu konunni svo að flýja aftur til Bretlands og tveimur árum síðar sneri hún aftur þangað, þá ólétt af dóttur sinni.

Við yfirheyrslur kom fram að konan hefði glímt við alvarleg andleg veikindi stuttu fyrir andlát dóttur sinnar. Félagsmálayfirvöld hafa meðal annars sætt gagnrýni vegna málsins fyrir að fylgjast ekki nógu náið með konunni eftir að hún kom aftur til Bretlands frá Sómalíu. Öllum hefði mátt vera ljóst að hún byggi við erfiðar félagslegar aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×