Enski boltinn

Barkley með nýjan fjögurra ára samning við Everton

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ross Barkley
Ross Barkley
Ross Barkley, miðjumaðurinn ungi og efnilegi í röðum Everton í ensku úrvalsdeildinni, hefur bundið enda á orðróm þess efnis að hann sé á förum frá uppeldisfélaginu.

Barkley skrifaði í dag undir nýjan fjögurra ára samning við Everton og er því samningsbundinn félaginu til ársins 2018.

Þessi tvítugi miðjumaður sló í gegn í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, en hann spilaði 34 af 38 leikjum liðsins og var valinn í enska landsliðið fyrir HM í Brasilíu.

Hann kom til greina sem besti ungi leikmaður tímabilsins, en hann hefur áður verið á láni hjá Sheffield Wednesday og Leeds.

„Everton og Ross passa fullkomlega saman. Roberto hefur gert þetta samband enn sérstakara. Þetta er mikilvægur samningur fyrir Everton,“ segir Bill Kenrwight, stjórnarformaður félagsins.

Everton hefur ekki verið neitt sérstaklega duglegt í leikmannamálum í sumar, en það er þó búið að ganga frá langtímasamningi við Gareth Barry sem kom frá Manchester City og þá keypti félagið Bosníumanninn Muhamed Besic frá Ferencvaros í gær.


Tengdar fréttir

Bosníumaður til Everton

Everton hefur fest kaup á Bosníumanninum Muhamed Besic frá Ferencvaros í Ungverjaland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×