Erlent

Bardaginn um borð í hjálparskipinu -myndband

Óli Tynes skrifar
Ísraelsk herskip og þyrlur fóru til móts við skipalestina.
Ísraelsk herskip og þyrlur fóru til móts við skipalestina.

Stjórnvöld í Ísrael höfðu margsinnis sagt að skipalestin fengi ekki að sigla að Gaza ströndinni. Þess í stað höfðu þau boðið að hún færi til hafnar í borginni Ashdod og hjálpargöngin yrðu send þaðan landleiðina til Gazaströndina.

Þau höfðu í leiðinni beðið um að tekinn yrði með pakki frá fjölskyldu ísraelska hermannsins Gilads Schalit sem hefur verið fangi Hamas samtakanna í nær fjögur ár. Þessu var hafnað.

Þegar skipin nálguðust Gaza sigldu ísraelsk herskip á móti þeim og skipuðu þeim að sigla til Ashdod.

Þegar því var ekki hlýtt var ráðist um borð. Sex skip voru í þessari lest. Á fimm þeirra var ekki veitt nein mótspyrna og þeim siglt til hafnar í Ashdod.

Á sjötta og stærsta skipinu var hinsvegar hópur manna viðbúinn með málmstangir og önnur barefli.

Á myndbandsupptökum má sjá hvernig þeir ráðast á ísraelsku hermennina sem láta sig síga niður úr þyrlum.

Þeir láta höggin dynja á hermönnunum og kasta einum þeirra fyrir borð. Aðra hafa þeir undir og láta höggin dynja á þeim.

Ísraelsku hermennirnir voru vopnaðir litboltabyssum og virðast hafa haldið að lendingin yrði eins og einhverskonar götuóeirðastjórn.

Þeir voru hinsvegar einnig vopnaðir skammbyssum og ísraelsk stjórnvöld segja að gripið hafi verið til þeirra þegar ljóst var að þeir væru að verða undir í átökunum.

Enn er óljóst hversu margir féllu í þessum átökum. Nefndar hafa verið tölur frá níu til átján.

Auk Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hafa margar einstakar ríkisstjórnir fordæmt þessar aðgerðir og víða hefur komið til mótmæla við ísraelsk sendiráð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×