Viðskipti erlent

Bankar undirbúa viðbrögð við mögulegri úrsögn Bretlands úr ESB

Atli Ísleifsson skrifar
Margir í fjármálahverfi London óttast að Bretar kunni að yfirgefa ESB í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili.
Margir í fjármálahverfi London óttast að Bretar kunni að yfirgefa ESB í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili. Vísir/AFP
Bandarískir bankar hafa hafið áætlanagerð um flutning starfstöðva sinna frá London, komi til þess að Bretland segi sig úr Evrópusambandinu. Í frétt Financial Times segir að til greina komi að flytja starfstöðvarnar til Írlands, komi til úrsagnar.

Citigroup Inc, Morgan Stanley og Bank of America Corp íhuga allir að flytja evrópskar starfstöðvar sínar til Írlands, neyðist bankarnir til að flytja þær úr Bretlandi. Í frétt FT segir að áætlanagerðin sé enn á byrjunarstigi.

Talsmenn Bank of America og Morgan Stanley hafa neitað að tjá sig um frétt FT, en ekki hefur náðst í Citigroup.

Í frétt EurActiv segir að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hafi heitið því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð ESB-aðildar Bretlands, beri Íhaldsmenn sigur úr býtum í þingkosningunum sem fram fara 2015. Óttast sumir að í kjölfar slíkrar atkvæðagreiðslu kunni Bretar að yfirgefa ESB.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×