Erlent

Bandaríkjastjórn sakar Rússa um árásina í Aleppo

Atli Ísleifsson skrifar
Bílalestin áður en hún lagði af stað.
Bílalestin áður en hún lagði af stað. MYND/RAUÐI HÁLFMÁNINN
Bandarísk stjórnvöld sökuðu í dag tvær rússneskar orrustuþotur um að bera ábyrgð á loftárásinni í gær sem beindist gegn bílalest Sameinuðu þjóðanna og Rauða hálfmánans fyrir utan sýrlensku borguna Aleppo. Bílalestin var að flytja mat og önnur hjálpargögn til tugþúsunda manna.

Átján af 31 vörubílum eyðilögðust og tuttugu óbreyttir borgarar fórust í árásinni.

Rússar hafa hafnað ásökununum, líkt og talsmenn Sýrlandsstjórnar, sem hafa notið stuðnings Rússa í baráttunni gegn uppreisnarmönnum. Segja talsmenn Rússlandsstjórnar að ekki hafi verið skotið á bílalestina úr lofti heldur af jörðu niðri.

Verið var að tæma bílana þegar árásin var gerð en í bílunum voru meðal annars matvæli og lyf fyrir tugþúsundir manna sem fastir eru í þorpinu Urem al-Kubra, skammt frá Aleppó.

Sameinuðu þjóðirnar hafa í kjölfar árásarinnar stöðvað allar hjálparsendingar þar til tryggt þyki að bílalestir verði ekki fyrir frekari árásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×