Erlent

Bandaríkjamenn búast við flóðum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Í sumum bæjum kyngdi niður ársúrkomu á aðeins örfáum dögum.
Í sumum bæjum kyngdi niður ársúrkomu á aðeins örfáum dögum. Vísir/afp
Almannavarnayfirvöld í Bandaríkjunum vara nú við flóðum. Undanfarna daga hefur snjóað mjög og hafa sum bæjarfélög séð allt að tveggja metra jafnfallinn snjó.

Veðurspá komandi daga gefur hins vegar til kynna aukin hlýindi og rigningu með tilheyrandi hláku. Hitastigið á að vera á milli tíu til sextán gráður á Celcius.

„Hitinn mun bræða snjóinn. Snjórinn mun verða að vatni og við hræðumst að vatnið verði að flóðum,“ segir Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York. „Við erum að undirbúa okkur fyrir mestu flóð sem við höfum séð lengi.“

Íbúar þeirra ríki þar sem snjórinn er mestur hafa verið beðnir um að færa eigur sínar úr kjallörum. Viðbúið sé að flæða muni inn í þá.

Alls þrettán dauðsföll hafa verið rakin til óveðursins. Nýjasta líkið sem fundist hefur var af manni sem varð innlyksa í bíl sínum eftir að hann fennti í kaf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×