Erlent

Bandaríkin snúa baki við viðskiptasamningi Kyrrahafsríkja

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, stoltur af tilskipuninni.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, stoltur af tilskipuninni. Vísir/EPA
Bandaríkin hafa snúið baki við fríverslunarsamningi Kyrrahafsríkja (e. Trans-Pacific Partnership) sem þau ætluðu að vera hluti af ásamt ellefu öðrum ríkjum. Þetta er ljóst eftir að forseti landsins, Donald Trump, undirritaði tilskipun um úrsögn landsins frá samningnum. BBC greinir frá.

Trump hefur heitið því frá því í kosningabaráttu sinni að koma í veg fyrir þátttöku Bandaríkjanna í samningnum, sem hann hefur alla tíð sagt að skerði samkeppnishæfi landsins og komi verst niður á almennu verkafólki þar í landi. Hann hefur gagnrýnt aðra viðskiptasamninga af sömu ástæðum. 

Samningurinn kvað á um fríverslun á milli ríkjanna líkt og þeirri sem má finna hjá ríkjum ESB.

Tilskipun Trump er talin formlegheitin ein þar sem bandaríska þingið hafði ekki samþykkt samninginn og af löndunum tólf sem hluta áttu að samningnum hafði aðeins eitt ríki samþykkt hann.

Trump hefur lofað því að hann muni lækka skatta og rýmka reglugerðarumhverfi fyrirtækja í Bandaríkjunum, en á sama tíma hefur hann hótað því að leggja umfangsmikla skatta á fyrirtæki sem færi verksmiðjur sínar úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×