Körfubolti

Bakvarðapar Toronto frábært og Toronto búið að jafna gegn Cleveland | Myndbönd

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Toronto Raptors er svo sannarlega ekki búið að gefast upp í úrslitaeinvígi austurdeildar NBA eins og einhverjir kannski héldu en liðið jafnaði rimmuna gegn Cleveland Cavaliers í nótt með sex stiga sigri á heimavelli, 105-99.

Toronto átti varla möguleika í Cleveland í fyrstu tveimur leikjunum á útivelli en liðið sýndi mikinn styrk í síðustu tveimur leikjum og er búið að gera einvígið heldur betur spennandi.

Bakvarðaparið magnaða hjá Raptors; Kyle Lowry og DeMar DeRozaz, var alveg frábært í leiknum en saman skoruðu þeir félagarnir 67 stig af 105 stigum Toronto.

Lowry var stigahæstur með 35 stig og DeRozan skoraði 32 en Bismack Biyombo skoraði fimm stig og tók fjórtán fráköst. Hann er smám saman að verða ein af stjörnum þessarar úrslitakeppni.

LeBron James var stigahæstur Cleveland með 29 stig auk þess sem hann tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar en Kyrie Irving skoraði 26 stig og gaf sex stoðsendingar.

Næsti leikur fer fram í Cleveland en liðin skiptast nú á heimaleikjum í næstu þremur leikjum. Toronto er búið að tapa öllum þremur leikjum sínum í Cleveland á tímabilinu með samtals 72 stigum. Það er 2-6 á útivelli í úrslitakeppninni en verður að fara að stela sigri á útivelli ætli það sér í úrslitarimmuna.

Í spilaranum hér að ofan má sjá Lowry og DeRozan fara á kostum en hér að neðan er glæsileg vörn Biscmack Biyombo.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×