Innlent

Bærinn borgi bílastæði kirkjunnar

Ingvar Haraldsson skrifar
Arnór L. Pálsson segir varla gangandi um bílastæðið við Lindakirkju vegna þess hve gróft það sé.
Arnór L. Pálsson segir varla gangandi um bílastæðið við Lindakirkju vegna þess hve gróft það sé. Fréttablaðið/Ernir
Sóknarnefnd Lindakirkju hefur óskað eftir því við Kópavogsbæ að bærinn borgi fyrir malbikun á bílastæðum fyrir utan kirkjuna. Sóknarnefndin hefur þegar fengið tilboð í verkið upp á ríflega fjórtán milljónir króna sem sóknarnefndin vonast til að fá greitt úr bæjarsjóði.

„Við erum að fara fram á það því við eigum ekki til neitt til að fara í bílastæði vegna niðurskurðar sóknargjalda,“ segir Arnór L. Pálsson, formaður sóknarnefndar Lindakirkju, og bætir við að varla sé gangandi um bílastæðið sökum þess hversu gróft það sé.

Kirkjan var tekin í notkun árið 2008. Bílastæðið hefur verið ómalbikað alla tíð auk þess sem kirkjan er ófullgerð að innan. Í bréfi sóknarnefndar segir að eftir að hafa safnað fé undanfarin sjö ár standi til að klára að innrétta kirkjuna. Sóknin hafi hins vegar ekki efni á að malbika bílastæðið sjálf og því sé leitað á náðir Kópavogsbæjar.

„Til þess að borga þurfa að vera til peningar. Það hefur orðið svo mikil skerðing á sóknargjöldum að við rétt höfum fyrir daglegum rekstri,“ segir Arnór.

Auk þess séu fordæmi fyrir að Kópavogsbær hlaupi undir bagga með kirkjum vegna malbikunar. „Bærinn hefur nú komið að bílastæðum kirkna áður, til dæmis í Digraneskirkju,“ segir Arnór.

Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs þann 11. september síðastliðinn þar sem því var vísað til sviðsstjóra umhverfissviðs til umsagnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×