Viðskipti innlent

Axel Hall ver doktorsritgerð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Axel Hall er lektor við Háskólann í Reykjavík.
Axel Hall er lektor við Háskólann í Reykjavík.
Skattar og atvinna á Norðurlöndunum er yfirskrift doktorsritgerðar Axels Hall. Hann ver ritgerðina í Hátíðarsal Háskóla Íslands á þriðjudag í næstu viku.

Í tilkynningu um doktorsvörnina segir að skattar séu á hverjum tíma eitt af umdeildustu og viðkvæmustu viðfangsefnum á vettvangi stjórnmála. Fjármögnun hins opinbera og endurdreifing tekna sé stjórnmálalegt viðfangsefni sem byggi á gildismati og skoðunum sem skorið er úr um í kosningum í lýðræðisríkjum. Norðurlöndin skipa sér í hóp þjóða sem er ólíkur flestum öðrum þegar litið er til umfangs endurdreifingar tekna og skattlagningu.

Í rannsókn Axels er því haldið fram að á Norðurlöndum hafi tekist betur að feta einstigið á milli skilvirkni og jafnaðar með gildismati, sköttum og útgjöldum hins opinbera sem stuðlar að meiri vinnuaflsþátttöku en ella. Markmið ritgerðarinnar er að bera saman skattkerfi á Norðurlöndum á vinnumarkaði og í kjölfarið að rannsaka áhrif ólíkra skattkerfa á atvinnu og vinnuframboð. Það hvernig aðferðir við skattlagningu vinnuafls hafi áhrif á vinnumarkað sé eitt af því sem hafi reynst hvati þessarar rannsóknar.

Axel Hall er lektor við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Hann lauk B.Sc.-gráðu í hagfræði við Háskóla Íslands árið 1994. Hann lauk svo meistaragráðu í stærðfræðilegri hagfræði og hagrannsóknum við London School of Economics árið 1995. Hann var sérfræðingur við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands á árunum 1996-2006 og var stundakennari við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands á sama tíma. Árið 2006 hóf Axel störf við Háskólann í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×