Erlent

Ávarpaði stúlkuna sem hann vonar að verði forseti Bandaríkjanna einn daginn

Birgir Olgeirsson skrifar
Seth Meyers í þætti gærkvöldsins.
Seth Meyers í þætti gærkvöldsins.
Spjallþáttastjórnandinn Seth Meyers reyndi að halda uppi glaðlegu fasi þegar hann fór yfir úrslit nýafstaðinna forsetakosninga í Bandaríkjunum, en það reyndist honum um megn.

Í níu mínútna löngu innslagi fór hann meðal annars yfir það hvernig hann hefur spáð rangt fyrir um gengi Donalds Trumps nýkjörins forseta Bandaríkjanna, í hvert einasta skipti síðastliðna átján mánuði, eða alveg frá því Trump tilkynnti í Trump-Turninum að hann ætlaði í forsetaframboð.

Þegar sú tilkynning var ljós hélt Meyers að hún væri uppátæki sem væri ætlað til að vekja athygli á Trump sjálfum og öllu þeim rekstri sem honum fylgir, og hann færi aldrei í framboð.

Það reyndist rangt hjá Meyers.

Hann lýsti því síðar yfir að Trump myndi aldrei hafa sigur í forvali Repúblikana og taldi engar líkur á að hann yrði næsti forseti Bandaríkjanna.

„Góðu fréttirnar eru þær að miðað við spádómsgáfur mínar þá verður hann væntanlega frábær forseti,“ sagði Meyers

Hann sagðist vonast til þess að Trump yrði ekki sá maður sem birtist Bandaríkjamönnum í kosningabaráttunni. Maður sem vill byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og maður sem hótar því að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna.

Meyers fór um víðan völl og náði að fara yfir ansi mikið efni tengdum þessum kosningum á innan við tíu mínútum.

Tónninn breyttist þó þegar hann byrjaði að tala um hvaða þýðingu tap Clintons hefur fyrir ungar stúlkur, og foreldra þeirra, sem vonuðust eftir sigri Clintons

„Hún verður ekki forseti,“ sagði Meyers klökkur. „En það þýðir ekki að dóttir einhvers verði það ekki einn daginn. Við vitum ekki hver þú ert, en ég ímynda mér að þetta augnablik í sögunni muni hafa mikil mótandi áhrif á þig. Augnablik sem færi þig til að leggja harðar af þér til að ná lengra. Ég vonast til að vera á lífi þegar þú verður svarin í embætti.“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×