Skoðun

Auknar skuldir og álögur

Kristinn Karl Brynjarsson skrifar
Skuldir A-hluta borgarsjóðs hafa aukist um 26 milljarða á kjörtímabilinu. Það jafngildir aukningu upp á 6,5 milljarða ár hvert, 18.000.000 á dag eða 750.000 á hverri klukkustund.

Fyrir 26 milljarða er hægt að byggja aðra Hörpu.

Fyrir 26 milljarða er hægt að fara 47 milljón sinnum í sund á sundstöðum borgarinnar. Miðað við núverandi gjaldskrá.

Fyrir 26 milljarða er hægt að kaupa 8.670.000 dagskort í Bláfjöll eða 945.000 vetrarpassa, miðað við gjaldskrá síðasta vetrar.

Fyrir 26 milljarða má kaupa 2.796.000 mánaðarkort (græn kort) í strætó eða 74.286.000 stakar ferðir með strætó.

26 milljarðar jafngilda leikskólagjaldi fyrir 20.930 börn allt kjörtímabilið. Miðað við núverandi gjaldskrá leikskólanna, gjaldflokk I og átta tíma veru á leikskóla.

Fyrir 26 milljarða má kaupa u.þ.b. þúsund 3ja herbergja íbúðir í Reykjavík.

Fyrir 26 milljarða má kaupa u.þ.b. 10 þúsund nýja Hyundai i20 bíla.

Af upptalningunni hér að ofan má sjá, að um verulegar fjárhæðir er að ræða. Á meðan á þessari skuldasöfnun hefur staðið, þá hafa álögur á borgarbúa hækkað langt umfram verðlag.

Víðast hvar hefur grunnþjónustan í borginni dregist saman eða í besta falli staðið í stað. Þrátt fyrir síauknar álögur á borgarbúa. En við lok kjörtímabilsins mun fjölskylda í Reykjavík með þrjú börn á skólaaldri greiða 440 þúsund krónum meira í skatta og þjónustugjöld til borgarinnar, en hún gerði í upphafi þess.

Það er því ekki með nokkrum hætti hægt að segja að fjármunum borgarinnar hafi á kjörtímabilinu verið forgangsraðað í þágu grunnþjónustu. Eða þá í þágu fjölskyldna er grunnþjónustuna nota.

Strax í byrjun næsta kjörtímabils, þarf því að fara í þá vinnu að endurskoða fjárhagsáætlun borgarinnar og forgangsraða fjármunum borgarinnar upp á nýtt. Í þágu öflugri grunnþjónustu borgarbúum öllum til heilla.

Í lífi og starfi setja borgarbúar fjölskyldur sínar í forgang. Það er því skylda allra borgarfulltrúa að setja fjölskyldurnar í borginni í fyrsta sæti.




Skoðun

Sjá meira


×