Innlent

Auðunn Blöndal um uppistand sitt á árshátíð MK: „Ég biðst afsökunar“

Birgir Olgeirsson skrifar
Auðunn Blöndal segist í yfirlýsingu ekki hafa gert sér grein fyrir hvaða áhrif uppistand hans á árshátíð MK myndi hafa.
Auðunn Blöndal segist í yfirlýsingu ekki hafa gert sér grein fyrir hvaða áhrif uppistand hans á árshátíð MK myndi hafa. Mynd/Pjetur
Auðunn Blöndal hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna þeirrar gagnrýni sem uppistand hans á árshátíð Menntaskólans í Kópavogi hefur fengið.

Mikil umræða hefur átt sér stað vegna brandaravals Auðuns á árshátíðinni en meðal þeirra sem hafa gagnrýnt hann er Magnús Már Guðmundsson, kennari við MK og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Sjá einnig:Umdeild gamanmál Auðuns Blöndal og slagsmál nemenda á árshátíð MK

Magnús sagði homma- og typpastærðarbrandara ekki þá einu sem ofbuðu honum heldur einnig upplegg Auðuns um tillögur hans að heitum á klámmyndum.

„Sjálfur ætlaði hann auðvitað að fara fyrir myndinni „Anaconda“. Gillz vini sínum ætlaði hann hins vegar aðalhlutverkið í klámmyndinni  „Nei, er ekkert svar“. Þetta var brandari fyrir honum. Um nauðgun. Fyrir fullan sal af 16 – 20 ára nemendur. Þvílíkur dómgreindarskortur,“ skrifaði Magnús og hefur Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kennari við Borgarholtsskóla, tekið undir með Magnúsi.

„Það er bara hreinlega ógeðfellt hvað þessi kvenfyrirlitningarhúmor á greiðan aðgang að framhaldsskólamenningunni.“

Í yfirlýsingu Auðuns segist hann ekki trúa í hjarta sínu að hann, sem skemmtikraftur sé að reyna að særa fólk. Segist hann ekki hafa gert sér grein fyrir hvaða áhrif þetta uppistand hans myndi hafa og biðst afsökunar.

„Ég trúi ekki í hjarta mínu að einhver haldi að ég, sem skemmtikraftur, sé að reyna að særa fólk. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvaða áhrif þetta myndi hafa. Ég biðst afsökunar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×