Viðskipti innlent

Atvinnurekendur segja farið um Íslandspóst með silkihönskum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/ernir
Félag atvinnurekenda segir Samkeppniseftirlitið hafa farið um Íslandspóst með silkihönskum og gagnrýnir sátt sem gerð var þeirra á milli í síðustu viku. Í raun þýði sáttin eingöngu að íslandspóstur heiti því að fara eftir lögum og hún nái ekki því markmiði sínu að vinna gegn vantrausti og tortryggni.

FA hefur gagnrýnt Íslandspóst verulega á undanförnum árum og segir vísbendingar um að samkeppnisrekstur fyrirtækisins hafi verið niðurgreiddur með tekjum af einkaréttarstarfsemi þess.

„FA lýsir furðu sinni á að sérstaklega sé tekið fram að með sáttinni viðurkenni Íslandspóstur engin brot á samkeppnislögum – enda má lesa það bæði út úr henni og fyrri niðurstöðum Samkeppniseftirlitsins að þau brot hafi verið víðtæk og viðvarandi – og að fyrirtækið greiði enga sekt. Vandséð er hvaða tilgangi það þjónar að fara um fyrirtækið slíkum silkihönskum,“ segir á vef FA.

Sjá einnig: Íslandspóstur fer í miklar breytingar

FA segir einnig að rannsókn Samkeppniseftirlitsins hafi tekið allt of langan tíma, en hún hefur staðið yfir frá árinu 2008. Þar af hafi sáttameðferðin staðið yfir í tæp fjögur ár.

„Á þessum langa tíma hafa keppinautar ríkisfyrirtækisins orðið fyrir margvíslegu tjóni, sem ekki hefur verið bætt. Þessi langi málsmeðferðartími er í raun algjörlega óviðunandi. Sú spurning vaknar óneitanlega hversu langan tíma það muni taka að taka á mögulegum brotum Íslandspósts á sáttinni.“

Þar að auki hafi Íslandspóstur fjárfest mikið í samkeppnisrekstri sínum á þessum tíma. Komi til þess að ríkið selji Íslandspóst að hluta eða öllu leyti sé um að ræða fyrirtæki sem hafi fengið marga milljarða ósanngjarnt samkeppnisforskot.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×