Viðskipti innlent

Atvinnulífið vill ekki lengur krónuna

Finnur Oddsson. Endurreisn efnahagslífsins hefur gengið of hægt, segir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Fréttablaðið/vilhelm
Finnur Oddsson. Endurreisn efnahagslífsins hefur gengið of hægt, segir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Fréttablaðið/vilhelm

 „Þetta kemur ekki á óvart. Öll óvissa sem tengist krónunni og gengi hennar er eingöngu til vandræða,“ segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Rétt rúm sextíu prósent forsvarsmanna um fjögur hundruð fyrirtækja telja annan gjaldmiðil en íslensku krónuna þjóna best hagsmunum viðskiptalífsins, samkvæmt niðurstöðum viðhorfskönnunar Viðskiptaráðs. Tæpur fjórðungur þátttakenda í könnuninni, 24 prósent, telur krónuna gegna hlutverkinu vel.

Í könnuninni var ekki spurt hvaða gjaldmiðill þátttakendur töldu þjóna hagsmunum landsins betur en krónan.

Mestur stuðningur við annan gjaldmiðil er í þjónustu- og orkugeiranum og í smásölu en langminnstur í fiskvinnslu og útgerð.

Finnur bendir á að annars vegar sé krónan varin með höftum sem geti ekki gert annað en dregið úr trúverðugleika hennar, bæði hér og erlendis. Hins vegar endurspegli virði hvers gjaldmiðils, bæði gengi hans og trúverðugleiki, heilbrigði þess efnahagslífs sem hann grundvallast á.

„Flestir eru sammála um að of hægt hefur gengið að koma efnahagslífinu af stað. Það hlýtur að rýra virði krónunnar. Vegna hafta endurspeglast þessi virðis­rýrnun hugsanlega síður í genginu. En það gera viðhorf forsvarsmanna atvinnulífsins til krónunnar,“ segir Finnur.

Viðhorfskönnunin var gerð dagana 13. til 31. janúar síðastliðinn. Í úrtakinu voru 720 forsvarsmenn í atvinnulífinu og var svarhlutfall 57 prósent. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×