Viðskipti innlent

Áttundi hver Íslendingur situr í stjórn fyrirtækis

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo sitja um 39.500 einstaklingar í stjórnum íslenskra fyrirtækja sem stjórnarformenn eða meðstjórnendur. Þetta samsvarar 12,5% af allri þjóðinni.

Upplýsingarnar koma fram í nýrri skoðun Viðskiptaráðs sem birt var á vefsíðu ráðsins í morgun. Þar segir að þessir tæplega 40 þúsund einstaklingar skapa atvinnu fyrir sjálfa sig og aðra sem vinnuveitendur, en þeir 125 þúsund starfsmenn sem vinna hjá íslenskum fyrirtækjum skapa verðmæti í formi vöru eða þjónustu og í formi arðs fyrir þá sem hætta fjármunum sínum til atvinnurekstrar. Um leið bæta þeir eigin lífsgæði og annarra.

Viðskiptaráð tekur fram að samkvæmt fyrirtækjaskrá eru starfrækt 32.500 fyrirtæki en af þeim áætlar Creditinfo að um 14.500 séu virk. Í þessum fyrirtækjum starfa um 125 þúsund manns á almennum vinnumarkaði auk umtalsverðs fjölda erlendis.

Þær greinar atvinnulífsins sem veita flestum atvinnu eru verslun og viðgerða-þjónusta með ríflega 21 þúsund ársverk auk iðnaðar og annarrar þjónustu, en hvor grein um sig telur ríflega 16 þúsund ársverk.

Þá segir í skoðuninni: „Í umfjöllun um atvinnulíf og vinnumarkað ber um of á þeim misskilningi að um tvo aðskilda hópa sé að ræða, fyrirtæki og heimili. Það blasir hinsvegar við að hagsmunir atvinnulífs eru samtvinnaðir hagsmunum heimila. Heimilin þurfa á atvinnu að halda og fyrirtækin, sem ekki verða starfrækt án fjármagns, mannauðs og neyslu, þurfa á heimilunum að halda.

Í raun sameinar atvinnulífið tvo hópa, launþega og atvinnurekendur, sem reyndar skarast verulega þar sem sami einstaklingur tilheyrir gjarnan báðum hópum. Á þessu samspili hvílir svo rekstur hins opinbera.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×