Lífið

Atli Bolla leikur Atla í Kanada

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Myndin fjallar um hóp ungmenna sem eru að nálgast þrítugt.
Myndin fjallar um hóp ungmenna sem eru að nálgast þrítugt. Fréttablaðið/Daníel
„Þetta er mjög artí mynd, það er alveg klárt“, segir Atli Bollason, kynningarstjóri RIFF-kvikmyndahátíðarinnar, sem er nú staddur í Toronto í Kanada til að leika í indímyndinni O, Brazen Age.

„Það er búið að vera mjög gaman að kíkja á það sem við höfum verið að skjóta og þetta lítur mjög skemmtilega út, mjög töff í alla staði.“

Að sögn Atla fjallar myndin um hóp kanadískra ungmenna sem eru að nálgast þrítugt og kveðja því æsku sína og alls kyns hluti sem þau hafa sankað að sér í gegnum árin og tákna liðna tíð. Í myndinni leikur Atli karakter sem heitir sama nafni og hann. „Ég held að þetta sé bara leti í leikstjóranum,“ segir Atli og hlær.

„Ég leik einn af þessum krökkum. Persónurnar eru bóhemlið í Toronto, hópur ungra listamanna mikið til.“ „Myndin fjallar mikið um hvernig við skiljum við okkur það sem liðið er. Það er endurspeglað í stíl myndarinnar sem er mjög nostalgískur, hún er til dæmis skotin að hluta til á Super 16-filmu sem nær fram mjög nostalgískum áhrifum.“

Atli bjó í Montréal í Kanada á sínum tíma en þar hitti hann leikstjórann Alexander Carson. Þetta er fyrsta mynd hans í fullri lengd en Atli hefur áður leikið í tveimur stuttmyndum eftir Carson. „Í lok næsta árs eigum við von á því að myndin fari að birtast á kvikmyndahátíðum,“ segir Atli.







O, BRAZEN AGE (2015) // 1 from North Country Cinema on Vimeo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×