Erlent

Átak gegn betli í Kaupmannahöfn

Atli Ísleifsson skrifar
Bannað er að betla og að heimilislausir sofi utandyra í Kaupmannahöfn.
Bannað er að betla og að heimilislausir sofi utandyra í Kaupmannahöfn. Vísir/Getty
Kaupmannahafnarlögeglan hefur hrundið af stað sérstöku átaki gegn betli í borginni og mun það standa sumarlangt. Þetta er gert til að framfylgja banni við betli og banni fyrir heimilislausa að sofa utandyra.

Lögreglan mun reka burtu fólk sem sefur í almenningsgörðum og betlar á götunum, en átakið beinist sérstaklega að erlendum ríkisborgurum að sögn sænska ríkisútvarpsins.

Lögregla í Kaupmannahöfn veitir vanalega ESB-borgurum viðvörun eða sekt á meðan öðrum getur verið vísað beint úr landi. Fjöldi hjálparsamtaka hafa farið fram á lagabreytingu og yfirvöld í Kaupmannahöfn hafa hvatt ríkisstjórnina til þess að veita þeim heimild til að aðstoða þeim sem eru án danskrar kennitölu en hafa enn sem komið er fengið afsvar.

Að sögn Trine Bramsen, þingmanns danska Jafnarmannaflokksins, segir að ríkisstjórnin vilji ekki koma af stað orðrómi um að Danmörk sé „frítt hótel með fríum mat“. „Þess vegna höldum við fast við bannið við betli og að gista í bakgörðum fólks. Þá velur maður annað land, til að mynda Svíþjóð, þar sem maður veit að möguleikar eru fleiri.“

Dönsk yfirvöld áætla að fjöldi þeirra heimilislausra í Kaupmannahöfn sem ekki eru danskir ríkisborgarar sé um fimm hundruð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×