Skoðun

ASÍ

Guðmundur Örn Jónsson skrifar
Á heimasíðu ASÍ stendur: „Samtökin berjast fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og standa vörð um réttindi þeirra.“ Það kom því á óvart þegar samtökin hvöttu landsmenn til að berjast fyrir hagsmunum Palestínumanna með mótmælum fyrir framan bandaríska sendiráðið fyrir nokkrum vikum. Einnig komu seinustu kjarasamningar á óvart, en megintilgangur þeirra var að ná niður verðbólgu, og standa þannig vörð um hagsmuni fjármagnseigenda. Virtir hagfræðingar, þar á meðal Paul Krugman, hafa bent á að verðbólga upp á t.d. 4% væri ágætur kostur fyrir megnið af fólki, á meðan stöðugt verðlag gagnast helst fjármagnseigendum.

Athafnir ASÍ hafa í nokkurn tíma verið úr takt við yfirlýstan tilgang samtakanna. Á seinasta áratug, þegar skattbyrði var í miklum mæli flutt yfir á þá tekjulægri, með þeim afleiðingum að sett var heimsmet í aukningu ójafnaðar, þá heyrðist lítið frá samtökunum. Jafnvel þótt ASÍ sé með hagdeild og vitað sé að aukning ójafnaðar skaði hagvöxt og minnki það sem er til skiptanna. Einnig hafa samtökin lengi barist fyrir því að atvinnurekendur stjórni lífeyrissjóðum félagsmanna ASÍ, í stað þess að stjórna þeim sjálfir með hagsmuni félagsmanna sinna að leiðarljósi.

Það er einnig skiljanlegt að stjórnendur samtakanna reyni að hugsa um annað en kjör félagsmanna sinna þegar litið er til árangurs af starfsemi samtakanna. Á seinustu 15 árum, meðan rauntekjur stjórnenda hafa hækkað um 46% hafa laun verkafólks og fólks í þjónustustörfum hækkað um 20%. Iðnaðarmenn hafa hækkað um heil 2%. Þannig hefur iðnaðarmaðurinn fengið 13 þúsund króna hækkun meðan stjórnandinn hefur hækkað um 327 þúsund krónur, eða 25 sinnum hærri upphæð.

Má búast við því að ASÍ fari á næstunni að berjast eingöngu fyrir hagsmunum félagsmanna sinna?




Skoðun

Sjá meira


×