Sport

Ashton Eaton lék eftir afrek Daley Thompson frá því fyrir 32 árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashton Eaton.
Ashton Eaton. Vísir/Anton
Bandaríkjamaðurinn Ashton Eaton tryggði sér sigur í tugþraut á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt en hann var að verja titil sinn frá því fyrir fjórum árum.

Ashton Eaton varð þar með fyrstur til að vinna tugþraut á tveimur Ólympíuleikum í röð síðan að Daley Thompson vann tugþrautina á ÓL í Moskvu 1980 og ÓL í Los Angeles 1984.

Ashton Eaton fékk alls 8993 stig í þrautinni og jafnaði með því Ólympíumet Tékkans Roman Sebrle frá því í Aþenu 2004.

Ashton Eaton fékk 59 stigum meira en næsti maður sem var Frakkinn Kevin Mayer með 8834 stig. Kanadamaðurinn Damien Warner tók síðan bronsið með því að ná í 8666 stig.  

Eaton fékk flest stig í tveimur greinum (langstökki og 400 m hlaupi) og var annar í 100 metra hlaupi og 110 metra grindarhlaupi. Hann var meðal fjögurra efstu í sex af greinum tíu en gekk verst í spjótkastinu (18. sæti).

Ashton Eaton hefur nú unnið tugþrautina á öllum heimsmeistaramótum (2013 og 2015) og Ólympíuleikum (2012 og 2016) á síðustu fjórum árum eða síðan að hann fékk "bara" silfur á HM í Daegu 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×