Enski boltinn

Ashley Cole hlær að óförum Arsenal í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Cole
Ashley Cole Vísir/Samsett/Getty
Ashley Cole átti á sínum tíma mjög góða tíma hjá Arsenal en yfirgaf félagið í eintómum leiðindum fyrir rúmum áratug síðan.

Cole fór til Chelsea og bæði hann og Jose Mourinho, stjóri Chelsea, voru sektaðir fyrir ólögleg samskipti milli stóra og samningsbundins leikmanns. Cole hafnaði 55 þúsund punda vikulaunum hjá Arsenal en samdi þess í stað við Chelsea og spilaði fyrir Jose Mourinho.

Arsenal fékk fimm milljónir punda og William Gallas í staðinn fyrir Ashley Cole árið 2006.

Ashley Cole er nú orðinn 36 ára gamall og spilar með LA Galaxy í Bandaríkjunum. Hann spilaði í tvö ár með Roma eftir að hann yfirgaf Chelsea árið 2014.

„Ég átti góðan tíma hjá Arsenal og auðvitað sakna ég leikmannanna sem spiluðu þar með mér. Ég hélt bara áfram mínu striki og vann alla titla sem voru í boði. Ég get því ekki sagt eftir að ég sjái eftir því í dag að hafa yfirgefið Arsenal,“ sagði Cole í viðtali við ITV. Telegraph segir frá.

Ashley Cole vann tvo meistaratitla með Arsenal og varð þrisvar bikarmeistari. Arsenal hefur ekki unnið enska meistaratitilinn eftir að hann fór en Cole varð enskur meistari með Chelsea árið 2010.  Hann vann líka Meistaradeildina en hana hefur Arsenal aldrei unnið.

Cole var gestur í spjallþætti á ITV og var í kjölfarið spurður af grínistanum Romesh Ranganathan hvort hann hefði ekki lúmskt gaman af óförum Arsenal-liðsins í dag. Arsenal hefur unnið enska bikarinn eftir að hann fór en ekki verið nálægt sigri í ensku deildinni. Nú er liðið í hættu á að missa af Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

„Ef ég segi alveg eins og er þá hlæ ég oft með sjálfum mér,“ sagði Cole og brosti.  Hann verður samt alltaf tengdur Arsenal enda lykilmaður í 2003-04 liðinu sem tapaði ekki leik á tímabilinu.  „The Invincibles“ eða „Hinir ósigrandi“ unnu 26 leiki og gerðu 12 jafntefli í leikjunum 38.

„Það var kannski vafasamt hvernig ég fór frá Arsenal en þeir sýndu mér ekki nægilega virðingu. Ég get samt líka tekið eitthvað af sökinni sjálfur. Ég get um leið kennt mörgum aðilum um hvernig fór og nú eru liðin tíu ár, sagði Cole.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×