Fótbolti

Þjóðverjar unnu Álfukeppnina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stindl fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Stindl fagnar sigurmarki sínu í kvöld. vísir/getty
Þjóðverjar halda áfram að safna titlum í sumar en A-landslið þeirra vann Álfukeppnina í kvöld með 1-0 sigri á Síle í úrslitaleik.

Á dögunum varð U-21 árs lið þjóðarinnar Evrópumeistari. Það sem gerir þennan sigur enn merkilegra en ella er sú staðreynd að marga sterka leikmenn vantaði í þýska liðið en það er nóg til af frábærum fótboltamönnum þar í landi.

Það var Lars Stindl, leikmaður Borussia Mönchengladbach, sem skoraði eina mark leiksins er hann skoraði í tómt markið eftir ævintýralegan klaufaskap í vörn Síle þar sem aftasti maður missti boltann.

Myndbandsdómarar voru enn og aftur í stóru hlutverki í keppninni. Að þessu sinni átti leikmaður Síle að fá rautt spjald í leiknum fyrir olnbogaskot en fékk aðeins gult. Ótrúlegt. Útfærslan af myndbandsdómgæslu hefur fengið falleinkunn á þessu móti.

Þess utan var mikill hiti í mönnum í leiknum og mátti litlu muna að upp úr syði á köflum.

Eftir öll lætin voru það Þjóðverjar sem stóðu upp sem sigurvegarar. Einu sinni sem oftar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×