Enski boltinn

Katrín yfirgefur Bellurnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Katrín Ómarsdóttir féll með Bellunum.
Katrín Ómarsdóttir féll með Bellunum. vísir/getty
Katrín Ómarsdóttir, landsliðskona í fótbolta, verður ekki áfram í herbúðum enska liðsins Doncaster Rovers Bellas. Eins árs samningur hennar er búinn og verður ekki endurnýjaður.

Katrín kom til Doncaster frá Liverpool fyrir síðasta tímabil og skoraði eitt mark í 16 leikjum. Markið tryggði Bellunum eina sigurinn á leiktíðinni en liðið tapaði hinum fimmtán og féll með aðeins þrjú stig.

„Það hafa allir verið svo góðir við mig hjá félaginu. Ég er mjög ánægð að hafa verið hluti af Donny Bellunum þó að tímabilið hafi verið erfitt. Ég veit að þetta var erfitt en þetta félag mun koma til baka sterkara,“ segir Katrín í viðtali við heimasíðu Doncaster.

Emma Coates, þjálfari Doncaster, sér á eftir Katrínu sem hún lofar á heimasíðu félagsins. „Katrín er leikmaður sem getur búið til eitthvað úr engu. Hún bjó til einstakar stundir fyrir okkur og þá sérstaklega þetta sigurmark í lokaleiknum sem var mjög mikilvægt fyrir okkur. Það var æðislegt að vinna með henni,“ segir þjálfarinn.

Katrín varð Englandsmeistari í tvígang með Liverpool árin 2013 og 2014 áður en hún flutti sig til Doncaster fyrr á þessu ári. Hún var áður á mála hjá Kristianstad í Svíþjóð en spilaði þar áður með KR í Pepsi-deildinni hér heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×