Enski boltinn

Everton gaf 200.000 pund í söfnun fyrir krabbameinsveikan dreng

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bradley heilsar Ashley Williams, varnarmanni Everton.
Bradley heilsar Ashley Williams, varnarmanni Everton. vísir/getty
Bradley Lowery, fimm ára enskur drengur sem glímir við krabbamein, leiddi Jermain Defoe, fyrirliða Sunderland, inn á völlinn þegar liðið mætti Everton á Ljósvangi í kvöld.

Bradley litli greindist með krabbamein þegar hann var aðeins eins árs. Hann gekkst undir viðamikla aðgerð árið 2014 þar sem meinið var fjarlægt. En krabbameinið lét aftur á sér kræla í sumar.

Meðferðin sem Bradley þarfnast er ekki í boði í Bretlandi og hann þarf því að fara til Bandaríkjanna. Það kostar sitt, nánar tiltekið 700.000 pund, og fjölskylda Bradleys setti af stað söfnun fyrir meðferðinni.

Bradley fékk að leiða Defoe inn á völlinn í kvöld og það vakti mikla athygli á söfnuninni.

Eftir leikinn bárust svo fréttir af því að Everton hefði gefið 200.000 pund í söfnunina. Félagið greindi einnig frá því að Bradley yrði boðið á leik Everton og Sunderland á Goodison Park seinna á tímabilinu og að áritaðar treyjur frá leiknum í kvöld yrðu settar á uppboð til styrktar söfnuninni.

Fjölmargir hafa lagt söfnuninni lið í kvöld en um 500.000 pund hafa þegar safnast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×