Fótbolti

Síle niðurlægði Mexíkó og Argentína flaug áfram | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexis Sánchez og Eduardo Vargas skoruðu fimm af sjö mörkum Síle í nótt.
Alexis Sánchez og Eduardo Vargas skoruðu fimm af sjö mörkum Síle í nótt. vísir/getty
Seinni tveir leikirnir í 8-liða úrslitum Copa América, Suður-Ameríkukeppninnar, fóru fram í nótt.

Ótrúleg úrslit urðu í leik Síle og Mexíkó í Santa Clara. Sílemenn, sem eru ríkjandi Suður-Ameríkumeistarar, voru miklu sterkari aðilinn í leiknum og hreinlega niðurlægðu Mexíkóa. Lokatölur 7-0, Síle í vil.

Eduardo Vargas skoraði fernu í leiknum en hann er nú orðinn markahæstur í keppninni með sex mörk. Edson Puch skoraði tvö mörk og Alexis Sánchez eitt.

Sílemenn leiddu 2-0 í hálfleik með mörkum frá Puch og Vargas og þeir gengu svo frá leiknum í byrjun seinni hálfleik.

Sánchez skoraði á 49. mínútu, sitt þriðja mark í keppninni, og Vargas gerði svo sitt annað mark þremur mínútum síðar. Hann fullkomnaði svo þrennuna á 57. mínútu.

Vargas skoraði sitt fjórða mark á 74. mínútu og Puch bætti sjöunda markinu við áður en yfir lauk. Lokatölur 7-0 og fyrsta tap Mexíkó eftir 22 leiki án taps í röð staðreynd.

Sílemenn mæta Kólumbíu í undanúrslitum keppninnar en í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast Bandaríkin og Argentína við.

Messi og Higuaín sáu um Venesúela.vísir/getty
Argentínumenn tryggðu sér farseðilinn í undanúrslitin með öruggum 4-1 sigri á Venesúela í nótt.

Lionel Messi var í byrjunarliði Argentínu í fyrsta sinn í keppninni og hann átti frábæran leik. Barcelona-maðurinn byrjaði á því að leggja upp mark fyrir Gonzalo Higuaín á 8. mínútu.

Higuaín gerði svo sitt annað mark tuttugu mínútum síðar eftir fáránleg mistök í vörn Venesúela og staðan 2-0 í hálfleik. Þetta voru fyrstu mörk Higuaíns í keppninni í ár.

Venesúelamenn fengu reyndar kjörið tækifæri til að minnka muninn undir lok fyrri hálfleiks þegar mexíkóski dómarinn Roberto García Orozco dæmdi vítaspyrnu á Sergio Romero, markvörð Argentínu. Romero bætti hins vegar upp fyrir mistökin með því að grípa auma vítaspyrnu Luis Seijas.

Messi kom Argentínu í 3-0 eftir klukkutíma leik og hann lagði svo fjórða markið upp fyrir varamanninn Erik Lamela á 71. mínútu. Í millitíðinni minnkaði Salomón Rondón muninn. Lokatölur 4-1, Argentínumönnum í vil.

Síle 7-0 Mexíkó Argentína 4-1 Venesúela

Tengdar fréttir

Bandaríkin í undanúrslit

Bandaríkjamenn voru fyrstir að tryggja sér farseðilinn í undanúrslit Copa America eftir 2-1 sigur á Ekvador í geggjuðum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×