Fótbolti

Belgarnir sprungu út í seinni hálfleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Romelu Lukaku fagnar marki sínu með landsliðsþjálfaranum Marc Wilmots.
Romelu Lukaku fagnar marki sínu með landsliðsþjálfaranum Marc Wilmots. Vísir/Getty
Belgar unnu nauðsynlegan sigur á Írum, 3-0, í E-riðli á EM 2016 í Frakklandi í dag.

Belgíska liðið tapaði 2-0 fyrir Ítalíu í fyrsta leik sínum og fékk nokkuð harða gagnrýni fyrir frammistöðu sína.

Belgarnir voru miklu meira með boltann í fyrri hálfleik en fundu ekki leiðir í gegnum varnarmúr Íra. Yannick Carrasco skoraði reyndar um miðjan fyrri hálfleik en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Staðan var markalaus í hálfleik en strax eftir þriggja mínútna leik í seinni hálfleik kom Romelu Lukaku Belgíu yfir með góðu skoti rétt fyrir utan vítateig eftir sendingu frá Kevin De Bruyne.

Á 61. mínútu skoraði Axel Witsel annað mark Belga með skalla eftir fyrirgjöf hægri bakvarðarins Thomas Meunier sem kom inn í belgíska liðið í dag. Markið átti sér langan aðdraganda en Belgarnir sendu boltann 28 sinnum á milli sín áður en Witsel rak smiðshöggið á sóknina.

Níu mínútum síðar kláraði Lukaku dæmið endanlega þegar hann skoraði af stuttu færi eftir skyndisókn og undirbúning varamannsins Dries Mertens.

Flottur sigur hjá Belgum staðreynd en Írar eru aðeins með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina í riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×