Innlent

Telja óásættanlegt að ferðaþjónustu og almannahagsmunum sé stefnt í voða

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá sáttafundi aðila.
Frá sáttafundi aðila. vísir/ernir
Samtök ferðaþjónustunnar telja óásættanlegt að ferðaþjónustunni og almannahagsmunum sé stefnt í voða með þeim aðstæðum sem yfirvinnubann flugumferðastjóra hefur skapað. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum.

Yfirvinnubann flugstjóra hefur staðið yfir í tvo mánuði eða frá 6. apríl síðastliðinum. Á þeim tíma hefur næturumferð um Keflavíkurflugvöll legið niðri í fjórgang vegna veikinda vakthafandi flugumferðarstjóra.

„Þriðja sumarið í röð hefur ferðaþjónustan þurft að búa við þær aðstæður að fámennir hópar launþega hafa valdið miklum vandræðum og haft atvinnugreinina og samgöngur til og frá landinu í hendi sér í kjarabaráttu sinni. Öruggar samgöngur til og frá landinu er eitthvað sem verður að vera hægt að treysta á,“ segir í yfirlýsingunni.

Samtökin benda á að ímynd og orðspor Íslands sé í húfi og mikilvægt sé að stöðugleiki ríki í samgöngum. Þau biðla til samningsaðila að leita allra leiða til að ná sáttum þannig að ekki komi til frekara tjóns fyrir íslenskt samfélag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×