Íslenski boltinn

Fyrirliðinn áfram á Selfossi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmunda hefur gert níu mörk í 15 deildarleikjum í sumar, auk þriggja marka í þremur bikarleikjum.
Guðmunda hefur gert níu mörk í 15 deildarleikjum í sumar, auk þriggja marka í þremur bikarleikjum. vísir/anton
Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið. Þetta kemur fram á Sunnlenska.is.

Guðmunda, sem er 21 árs, hefur þrátt fyrir ungan aldur verið í lykilhlutverki í liði Selfoss undanfarin ár. Hún hefur gert 39 mörk í 68 leikjum með Selfossi í efstu deild en liðið vann sér sæti í deild þeirra bestu árið 2011.

„Ég er mjög ánægð með að framlengja við Selfoss. Hér er hugsað vel um kvennaboltann og það verður skemmtilegt að fá að halda áfram að byggja upp öflugt lið hér á svæðinu,“ sagði Guðmunda í samtali við sunnlenska.is.

„Í svona góðu umhverfi þá fæ ég tækifæri til þess að halda áfram að bæta mig sem leikmaður.“

Selfoss er sem stendur í 3. sæti Pepsi-deildar kvenna. Þá er liðið komið í úrslitaleik Borgunarbikarsins þar sem það mætir Stjörnunni á laugardaginn kemur. Þessi sömu lið mættust í bikarúrslitunum í fyrra þar sem Stjarnan hafði betur, 4-0.

Guðmunda hefur leikið níu A-landsleiki og skorað eitt mark, auk fjölda leikja fyrir yngri landsliðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×