Enski boltinn

Breiðablik fær Dana og Norðmann á reynslu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Breiðablik fær í dag norska sóknarmanninn Tor André Skimmeland á reynslu sem og Danann Johannes Ritter. Skimmeland er fæddur 1996 og kemur frá Haugesund en Ritter er leikmaður Nordsjælland í Danmörku, fæddur 1995.

„Þetta kemur til vegna þess að við erum að skoða í kringum okkur. Norðmaðurinn kemur í gegnum umboðsmann sem mælir með honum en Óli Kristjáns benti okkur og Ritter,“ segir Arnar Grétarsson í samtali við Vísi.

Skimmeland hefur ekki náð að festa sér sæti í leikmannahópi Haugesund, en hann er U19 ára landsliðsmaður Noregs. Ritter hefur ekki enn spilað aðalliðssleik fyrir Nordsjælland.

„Þetta eru ungir strákar en engu að síður ef menn eru 19-20 ára gamlir og góðir í fótbolta þá eru þeir bara tilbúnir,“ segir Arnar sem vildi síður vera í þeim pakka að fá menn á reynslu í glugganum.

„Auðvitað vill maður frekar fá eitthvað sem maður þekkir 100 prósent úr deildinni,“ segir Arnar, en Blikar héldu sig vera búna að fá Þorstein Má Ragnarsson frá KR áður en hann ákvað að vera áfram í Vesturbænum.

„Við erum að skoða aðra möguleika líka en það er ekkert auðvelt að fá menn úr öðrum liðum hérna heima. Það eru margir öflugir spilarar í 1. deildinni til dæmis en þar eru liðin síður tilbúin að láta menn fara þegar þau eru í baráttu um eitthvað,“ segir Arnar.

„Það er alltaf ákveðin hætta í þessu og auðvitað er ekkert besta aðstaðan að vera fá menn á reynslu og svo eiga þeir eftir að aðlagast öllu. Það er bara ekkert annað inn í myndinni núna,“ segir Arnar Grétarsson.

Hvorki Skimmeland né Ritter eru hreinræktaðir framherjar heldur geta þeir spilað kantstöðurnar og leyst af fremst á miðju, að sögn Arnars




Fleiri fréttir

Sjá meira


×