Fótbolti

West Ham slapp áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tomkins skoraði í fyrri leiknum og var rekinn út af í þeim seinni.
Tomkins skoraði í fyrri leiknum og var rekinn út af í þeim seinni. vísir/afp
West Ham rétt slapp áfram í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar eftir sigur í vítaspyrnukeppni á maltneska liðinu Birkirkara.

Hamrarnir unnu fyrri leikinn á Upton Park, 1-0, með marki James Tomkins. Hann kom einnig við sögu í leiknum í kvöld en hann var rekinn af velli með rautt spjald á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Þá var staðan 1-0, Birkirkara í vil. Markið skoraði Fabrizio Miccoli, fyrrverandi leikmaður Juventus, Palermo og fleiri liða.

Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar. Hvorugu liðinu tókst að skora þar en Mauricio Mazzetti, leikmanni Birkirkara, tókst að næla sér í sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Í vítaspyrnukeppninni reyndust leikmenn West Ham sterkari á svellinu. Þeir skoruðu úr öllum fimm spyrnum sínum en Nikola Vukanac, leikmanni maltneska liðsins, brást bogalistin og West Ham fagnaði því 5-3 sigri og sæti í 3. umferðinni.

Þar mæta lærisveinar Slavens Bilic Astra Giurgiu frá Rúmeníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×