Innlent

Föstudagsviðtalið: Listamenn eiga að láta í sér heyra

Sigríður Björg Tómasdóttir skrifar
Víkingur Heiðar Ólafsson Þykir einkennilegt að íþróttahreyfingin sæti ekki sömu gagnrýnu umræðu og menningargeirinn þrátt fyrir að hún sé rekin fyrir opinbert fé.
Víkingur Heiðar Ólafsson Þykir einkennilegt að íþróttahreyfingin sæti ekki sömu gagnrýnu umræðu og menningargeirinn þrátt fyrir að hún sé rekin fyrir opinbert fé.

„Ég frétti af þungum áhyggjum tónlistarkennara vegna næsta skólaárs eftir að fjárhagsáætlun lá fyrir. Þegar ég fór svo að rýna í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar á netinu sá ég að niðurskurðurinn var sláandi. Í framhaldinu fór ég að skoða framlög til tónlistarskóla undanfarin ár, aftur til 2004 sem er eins langt og maður kemst á netinu, og þá áttaði ég mig á vægast sagt furðulegu samhengi talnanna, hversu rýr hlutur tónlistarskóla varð í góðærinu," segir Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari, sem hefur undanfarið blandað sér í umræðuna um niðurskurð í framlögum til tónlistarskóla, til að mynda með grein í Fréttablaðinu í gær.

Víkingur Heiðar býr í Oxford á Englandi og þegar Fréttablaðið sló á þráðinn var hann í miðjum klíðum við æfingar fyrir tónleika sem verða í Dölunum í Svíþjóð í næstu viku. Þrátt fyrir annir við undirbúning þessara tónleika og fleiri verkefna hefur Víkingur Heiðar varið miklum tíma undanfarið við að rýna í framlög til tónlistarskóla og meðal annars borið þau saman við framlög til íþróttahreyfingarinnar.

„Ég er alls ekki á móti íþróttum, æfði fótbolta með Val og Fram sjálfur, en það eru hreinar línur að þessi samanburður verður að fara fram. Þróunin á framlögum Reykjavíkurborgar til tónlistarskóla og íþróttahreyfingarinnar er lyginni líkastur. Árið 2004 voru til dæmis æfinga- og húsaleigustyrkir íþróttafélaganna sambærilegir við framlög til tónlistarskólanna en svo fór að skilja á milli og munurinn varð ótrúlega mikill - tónlistarskólar hækkuðu á þessum tíma um 8 prósent en íþróttastyrkirnir um 173 prósent. Í framreiknuðum tölum hafa tónlistarskólarnir lækkað um 31 prósent frá 2004 en íþróttastyrkirnir hækkað um 73 prósent," segir Víkingur Heiðar, sem segir grátlegt að þessi munur sé ekki hafður til hliðsjónar nú þegar verið er að tala um niðurskurð á fjárframlögum.

Stjórnmálamenn og íþróttir

„Íþróttahreyfingin er að koma út úr tímabili þar sem henni höfðu verið tryggðar háar upphæðir í aukinn rekstur og húsnæði. Skemmst er að minnast samnings borgarinnar við ÍTR til þriggja ára frá janúar 2008, þann stærsta í sögu borgarinnar, sem veitti 4,8 milljörðum til íþróttamála, uppbyggingar mannvirkja og reksturs. Það er því mjög ósanngjarnt að leggja hlutfallslega sömu eða meiri niðurskurðarkröfu á tónlistarskólana og íþróttahreyfinguna," bætir Víkingur Heiðar við og bendir á að íþróttahreyfingin hafi ætíð haft betri aðgang að fjármagni í gegnum stjórnmálamenn og áhrifamenn í stjórnmálum sem sitji í stjórnum íþróttahreyfinga. Þrátt fyrir mikla styrki úr opinberum sjóðum sæti íþróttahreyfingin samt ekki sömu gagnrýni í umræðunni.

„Það er landlægt í umræðunni, kannski síðan stór hluti vinnandi manna var á sjó, að líta á menningu sem eitthvert dútl. Hún er í raun yfirleitt ekki borin saman við það sem á að bera hana saman við, aðrar atvinnugreinar. Í skýrslu menntamálaráðuneytisins sem kom út í desember síðastliðnum kemur fram að menningin velti 191 milljarði árið 2009 og skapaði tíu þúsund störf. Það er meiri velta en landbúnaður og sjávarútvegur samanlagt. Þetta er staðreynd og þess vegna er afar þreytandi að hlusta á fólk, ekki síst stjórnmálamenn, setja tónlist í eitthvert hobbísamhengi þegar það hentar því. Eins og til dæmis hobbítónlistarmennirnir í Besta flokknum gerðu í umræðum í borgarstjórn núna í vikunni. Stjórnmálamenn eru síðan jafn duglegir í að hampa tónlistarfólki þegar það hentar þeim," segir Víkingur Heiðar, sem segir sömuleiðis óþolandi að nemendur á framhaldsstigi í tónlist séu ætíð notaðir sem peð í baráttunni um hver eigi að niðurgreiða þeirra nám, ríki eða borg.

Ekki bara auðmenn í tónlistarnám

„Um þetta hefur verið deilt um árabil án niðurstöðu. Menntamálaráðuneytið hefur boðist til þess að taka við þeim en borgin vill ganga lengra og ekki heldur borga með nemendum sem eru eldri en sextán ára og eru ekki komnir á framhaldsstig. Það er hins vegar fáránleg krafa, því það er mjög misjafnt milli tónlistargreina hversu snemma fólk byrjar; blásarar eru seinna á ferðinni en píanó- og fiðluleikarar og söngvarar byrja oft seint í tónlistarnámi. Og í djassgeiranum byrjar fólk jafnvel eftir stúdentspróf, líkt og hin frábæra söngkona Kristjana Stefánsdóttir sem hóf til dæmis söngnám 21 árs. Hefði hún endilega getað gert það ef það hefði kostað hana 4-500 þúsund á ári? Viljum við lifa í samfélagi þar sem aðeins er á færi ríkustu manna að stunda tónlistarnám eftir að sextán ára aldri er náð?"

Víkingur Heiðar bendir á að skólagjöld fyrir framhaldsnema hafi hækkað mikið undanfarin ár, þau séu nú um um þrjú hundruð þúsund fyrir þá sem lengst komnir. Ekki sé hægt að hækka þessi gjöld án þess að útiloka mjög marga frá möguleikanum á því að læra á hljóðfæri.

„Ég þekki það mjög vel að það hefur ekki verið bruðlað með fé í tónlistarskólunum í Reykjavík. Og þar sem ég þekki best til, í Tónlistarskóla Reykjavíkur, þar sem flestir framhaldsnemar eru, er nánast engin yfirbygging. Endurnýjun á aðstöðu og hljóðfærum hefur líka ekki átt sér stað í marga áratugi. Það er ekki hægt að skera þar niður um 33 prósent næsta haust, elsti tónlistarskóli Íslands verður óstarfhæfur ef áform borgarinnar haldast óbreytt," segir Víkingur Heiðar, sem sjálfur nam í þeim skóla áður en hann hélt utan til Bandaríkjanna í frekara nám í píanóleik.

Ekki pólitískurSpurður hvort hann sé mjög pólitískur svarar hann neitandi. „Ég myndi aldrei blanda mér í pólitíska umræðu af neinu tagi nema um þessi málefni tónlistarskólanna, og þá sérstaklega nú af því að vegið er að þeim á yfirgengilegan hátt. Mér finnst þó að við tónlistarmenn og listamenn almennt mættum láta heyra meira í okkur. Auðvitað hefur einnig heyrst afar hátt í þeim sem tala niður til listamanna, láta eins og þeir séu baggi á þjóðinni. Nú er hægt að fletta í skýrslu menntamálaráðuneytisins um þá stóru atvinnugrein sem listirnar eru og ég vonast til þess að listamenn láti kröftuglega til sín taka í þessari afvegaleiddu umræðu um niðurskurð borgarinnar til listgreina."

Spilar í Hörpunni

Víkingur Heiðar útskrifaðist frá Juilliard-skólanum í New York vorið 2008, 24 ára gamall, og hefur haft í nógu að snúast síðan. Í næstu viku leikur hann á tónlistarhátíð í Dölunum í Svíþjóð og stendur í ströngu við að æfa píanókonsert eftir ítalska tónskáldið Nino Rota fyrir það tækifæri. „Margir þekkja hann því að hann samdi tónlistina í kvikmyndinni Guðföðurnum. Þetta er algjört meistaraverk eftir hann sem ég er að fara að spila og það skemmtilegasta er að enginn þekkir það; ég þurfti að hafa mikið fyrir að útvega mér nóturnar. En svo mun ég líka leika íslensk þjóðlög á öðrum tónleikum á þessari hátíð,."

Þar fyrir utan er Víkingur Heiðar að undirbúa tónleika í Þýskalandi og leggja drög að upptökum á sinni annarri plötu. Hann mun einnig leika á opnunartónleikum tónlistarhússins Hörpunnar undir stjórn Vladimírs Ashkenazy. Víkingur Heiðar er afar spenntur fyrir nýja tónlistarhúsinu og þreyttur á því þegar það er dregið inn í umræðu um framlög til grunnþjónustu á borð við mennta- og heilbrigðismál.

Íþróttafélögin ríkisstyrkt„Það er hjákátlegt að draga Hörpuna inn í þessa umræðu, af hverju er til dæmis kostnaður ríkisins við íþróttirnar ekki alveg eins nefndur? Aldrei er reiknað með tekjunum sem verða af húsinu og aðdráttarafli fyrir túrisma. Blöð á borð við The New York Times halda ekki vatni yfir Reykjavík sem ferðamannastað og nefna sérstaklega Hörpu. Ekki virðist heldur spáð í að í áratugi hefur engu verið eytt í byggingarframkvæmdir fyrir tónlistina, jafnvel þótt hún sé atvinnugrein sem velti tugmilljörðum. Tugir stórra íþróttamannvirkja hafa risið, ákvarðanir um það hafa verið teknar án þess að áður þyrfti að fara fram umræða í mörg ár eða áratugi um hvort þau myndu standa undir rekstri sínum óstudd. Þau gera það auðvitað ekki. Og öllum er sama. En þegar á að byggja tónlistarhús, þá lita fjölmiðlar og stjórnmálamenn umræðuna ótrúlega dökkum litum. Þetta skil ég ekki, Sinfóníuhljómsveitin sem meðal annars var tilnefnd til Grammy-verðlaunanna 2009 hefur mátt spila í kvikmyndahúsi í áratugi. "

Sjónvarpsþættir á döfinniAnnað spennandi verkefni sem er á döfinni hjá Víkingi Heiðari eru sjónvarpsþættir sem hann og sambýliskona hans, Halla Oddný Magnúsdóttir, eru að undirbúa saman. Þau eru búin að skrifa handrit að tíu sjónvarpsþáttum þar sem teknir verða fyrir ólíkir þættir tónlistarinnar. „Okkur langar til að varpa ljósi á ótal margt en hlutverk túlkandans í klassískri tónlist verður rauður þráður. Við munum fá ungt fólk til að tjá sig afgerandi um klassíska tónlist, ég lít ekki á hana sem ósnertanlegan safngrip. Hún á í stöðugu samtali við samtímann og því vil ég miðla umfram allt annað," segir Víkingur Heiðar að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×