Lífið

Gaukur á Stöng opnaður á ný

Mynd úr safni
„Gaukurinn var hálfgerð félagsmiðstöð tónlistarmanna. Þangað komu allir sem voru að spila, hittust og ræddu um bransann,“ segir gítarleikarinn og athafnamaðurinn Franz Gunnarsson.

Gaukur á Stöng verður opnaður á ný á föstudaginn þar sem tónleikastaðurinn Sódóma hefur verið frá árinu 2009. Gaukur á Stöng var einn vinsælasti tónleikastaður borgarinnar á árum áður og Franz segist vilja endurvekja stemninguna sem var á Gauknum þegar popparar, djassarar og rokkarar hittust þar og ræddu málin. „Við vildum setja tónlistarmanninn í fyrsta sæti. Það er gert erlendis og við viljum fylgja þeirri stefnu,“ segir Franz og játar að ef tónlistarmennirnir sem komi fram séu ánægðir smitist það auðveldlega til gesta staðarins.

Hann segir aðstöðu fyrir tónlistarmennina hafa verið bætta til muna. „Við erum búnir að betrumbæta aðstöðuna baksviðs, þannig að það er meira rými fyrir tónlistarmanninn til að hita sig upp fyrir gigg. Svo höfum við fest kaup á græjum; trommusettum og mögnurum, þannig að tónlistarmaðurinn þarf ekki að róta og getur nýtt græjurnar í húsinu.“

Franz segir opnunardagskrána um helgina eiga að sýna breidd í tónlistarvali staðarins. „Við ætlum að vera með Jagúar á föstudaginn, Ensími og Ourlives á laugardaginn og Eyjólf Kristjánsson á sunnudaginn,“ segir hann. „Við ætlum að fylgja gömlu gildunum sem Gaukurinn hafði og vera með allar tónlistarstefnur í húsinu.“- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×