Skoðun

„Sófaspeki“ sjómanns

Úlfar Hauksson skrifar um sjávarútvegsmál

Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur við Lagastofnun Háskóla Íslands , birti grein hér í Fréttablaðinu þann 27. mars sl. undir yfirskriftinni „Söguskoðun sófaspekinga". Í greininni er Helgi að kenna íslenskum „mennta- og gáfumennum", sem hann kallar „sófaspekinga", lexíu varðandi þróun íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins. Helgi setur ofan í við „sófaspekingana" fyrir skort á almennri þekkingu á þróun íslensks sjávarútvegs auk þess sem hann segir þá gefa ranga mynd af samspili gengisfellinga íslensku krónunnar og afkomu sjávarútvegsins. Ekki er ætlunin að fara nánar út í gagnrýni Helga á „sófaspekingana". Hins vegar er augljóst að upprifjun Helga á handstýrðri hagstjórn fortíðar með síendurtekinni rússíbanareið gengisfellinga íslensku krónunnar er ekki neinum bjóðandi; hvorki einstaklingum né fyrirtækjum hvort heldur sem er til sjávar eða sveita. Grein Helga undirstrikar því hina hrópandi þörf fyrir stöðugleika í efnahagsmálum til framtíðar. Til að slíkt geti orðið þarf að taka upp annan gjaldmiðil. Flestir gera sér grein fyrir þessari staðreynd og jafnframt því að eini gjaldmiðillinn sem kemur til greina er evra. Auk þess gera flestir sér grein fyrir því að evra fæst ekki nema með aðild að ESB.

Áskorun Helga ÁssHelgi telur að það „væri þarft verk fyrir marga sófaspekinga íslenskrar menntaelítu að kynna sér sögu íslenskrar fiskveiðistjórnar betur og bera hana t.d. saman við þróun fiskveiðistefnu Evrópusambandsins frá árinu 1983. Sé það gert af bærilegri sanngirni sést hversu stoltir Íslendingar geta verið af sínu fiskveiðistjórnkerfi".

Eflaust er það rétt hjá Helga að margur „sófaspekingurinn" mætti kynna sér sögu og þróun íslensks sjávarútvegs betur. Í fræðistörfum sínum hefur Helgi gert það og komist að niðurstöðu um ágæti þess kerfis sem við búum við í dag og er ekkert nema gott um það að segja. Við lestur greinar Helga hnaut ég hins vegar um þá áskorun að bera saman sögu íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins og stefnu ESB með „bærilegri sanngirni". Fullyrt er að samanburðurinn sýni yfirburði Íslendinga umfram aðra við fiskveiðistjórnun.

Nú vill svo til að undirritaður hefur unnið rannsókn þar sem íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið er borið saman við sjávarútvegsstefnu ESB með hugsanlega aðild í huga. Ljóst má vera að sjávarútvegur í ESB glímir við mikinn vanda. Jafnframt er ljóst að það er eins konar íþrótt á Íslandi að tala af léttúð og vanþekkingu um sjávarútveg í ESB. Þær aðstæður sem sjávarútvegur í ESB býr við eru með allt öðrum og ósambærilegum hætti en hér á Íslandi.

Ósambærilegar aðstæðurÍ samanburði við ESB, þar sem fiskveiðilögsögur skarast undantekningalaust og fiskistofnar eru sameiginlegir, má með „bærilegri sanngirni" segja að fiskveiðistjórnun á Íslandi fari fram í einangruðu fiskabúri. Fullyrða má að ef ekki er hægt að ná góðum árangri við fiskveiðistjórnun á Íslandi, þar sem flestir okkar helstu nytjastofnar eru tiltölulega staðbundnir, er það hvergi hægt. Strandríki ESB búa við gerólíkar aðstæður og úrlausnarefni af allt annarri stærðargráðu auk þess sem sjávarútvegur er rekinn með gerólíkum formerkjum af augljósum efnahagslegum ástæðum. Af landfræðilegum ástæðum fer fiskveiðistjórnun í ESB að hluta til fram á alþjóðlegum vettvangi sambandsins - aðstæður leyfa einfaldlega ekki annað. Þar er t.d. tekinn sameiginleg ákvörðun um hámarksafla sem er úthlutað til strandríkja sem síðan geta stuðst við hvaða kerfi sem er við upptöku aflans. Dæmi eru um afbrigði við íslenska kvótakerfið hvað það varðar. Þrátt fyrir ýmsa annmarka sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar, og „sófaspeki" margra gáfumanna, er algjörlega útilokað að stjórna fiskveiðum alfarið frá einstaka strandríki - slíkt yrði einfaldlega ávísun á allsherjar þorskastríð. Það er því algjör misskilningur að sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB sé rót alls hins illa í evrópskum sjávarútvegi. Málið er mun flóknara en svo og fullyrða má að staðan væri síst betri hefðu menn ekki vettvang ESB til að ráða ráðum sínum.

Söguleg þróun og sanngirniÍslenska kvótakerfið hefur knúið fram hagræðingu í sjávarútvegi á ýmsum sviðum. Sé hins vegar litið til þess afla sem við Íslendingar tökum úr sjó í dag, eftir áratuga kvótakerfi, má hins vegar efast um ágæti kerfisins sem fiskveiðistjórnunartæki. Undirritaður gerir sér hins vegar fulla grein fyrir því að hér er um flókið samspil stjórnunar og umhverfisaðstæðna að ræða. En hverju sem því líður þá má með „bærilegri sanngirni" segja að íslenska „fiskabúrið" sé í veigamiklum atriðum fullkomlega ósamanburðarhæft við þann flókna veruleika sem hafsvæði ESB býður upp á. Það vita þeir sem hafa kynnt sér sögulega þróun fiskveiða og fiskveiðistjórnunar á Íslandi og í ESB.

Höfundur er stjórnmálafræðingur og togarasjómaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×