Viðskipti innlent

Störe opnar fyrir norskt lán án Icesavesamkomulags

Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Noregs hefur dregið úr kröfum sínum gagnvart Íslandi og opnar nú fyrir þann möguleika að Norðmenn láni Íslendingum, í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), án þess að lausn sé komin í Icesave deilunni.

Blaðið Aftenposten greinir einnig frá að rætt hafi verið um að Norðmenn myndu veita Íslendingum lán fyrir utan AGS pakkan og þá í samvinnu við ESB. „Íslendingar hafa óskað eftir breiðum alþjóðlegum stuðningi. Ef aðrar útgáfur af stuðningi koma fram munum við ekki útiloka að ræða þær," segir Störe.

Þetta kemur fram í viðtali við Störe sem Aftenposten birtir í dag en á morgun munu utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittast í Kaupmannahöfn þar sem Icesave deilan verður meðal umræðuefna.

„Aðstoð Noregs er bundin áætlun AGS og að okkar mati er sú áætlun ekki bundin við lausn á Icesave deilunni svo lengi sem skilyrði áætlunarinnar standa," segir Störe. „Íslensk stjórnvöld segja mjög ákveðið að skilyrðin séu til staðar og því eigum við að vera opnari fyrir að ræða þessa áætlun innan AGS."

Störe leggur áherslu á að norrænu þjóðirnar eigi ekki undir neinum kringumstæðum að standa í vegi fyrir því að málið sé rætt innan AGS. Fram kemur í umfjölluninni að önnur Norðurlönd en Noregur geri skýra kröfu um að Icesave málið leysist áður en þau veita sín lán til Íslands í gegnum AGS. Hann segir að málið verði rætt á fundinum á morgun.

Störe segir að hann viti ekki til þess að Bretar og Hollendingar hafi reynt að hindra framgang áætlunar AGS á Íslandi. Og fyrr í vikunni endurtók Dominique Strauss-Kahn forstjóri AGS að hann er reiðubúinn að halda áætluninni áfram án niðurstöðu í Icesave deilunni.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×