Viðskipti innlent

Ekki dómur um lögmæti gengislána

Guðjón Rúnarsson.
Guðjón Rúnarsson.

Framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja hafnar því að hægt sé að túlka þau orð hans að óheimilt sé að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt - sem dóm um lögmæti gengistryggðra bíla- og húsnæðislána.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær birtum við níu ára gamalt bréf sem Guðjón Rúnarsson skrifaði til viðskiptanefndar Alþingis sem framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Bréfið var umsögn um lög um vexti og verðtryggingu - þau lög sem liggja til grundvallar dómsmálum um lögmæti gengistryggðra lána. Í bréfinu segir Guðjón orðrétt að eins og lögin eru í dag (og verði að óbreyttu frumvarpi) sé óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt.

Þarna er því talsmaður fjármálafyrirtækja að lýsa því yfir að bannað sé samkvæmt lögum að gengistryggja íslensk krónu lán. Guðjón sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi. Þar segir að vegna fréttar Stöðvar 2 telji hann rétt að undirstrika að í bréfinu hafi hann kallað eftir breytingum á frumvarpinu til að auka skýrleika laganna. Síðan hafi komið á daginn að samtökin hafi haft nokkuð til síns máls. Guðjón segir að ekki sé hægt að túlka umsögnina svo að í henni felist dómur um það hvort skilmálar einhverra lána fjármálafyrirtækja sem síðar komu til sögunnar séu löglegir eða ólöglegir.

Þá telur Guðjón brýnt að niðurstaða Hæstaréttar um lögmæti gengislánanna liggi fyrir sem fyrst.

Rétt er að taka fram að þrjú meginefni eru í hinni níu ára gömlu umsögn Guðjóns, í fyrsta lagi vildu fjármálafyrirtækin afnema vald Seðlabankans til að ákveða dráttarvexti, eins vildu þau afnema heimildir Seðlabankans til að takmarka notkun verðtryggingar á lánum og í þriðja lagi vildu þau fá að tengja lán við fleiri vísitölur en neyslu- og hlutabréfavísitölu. Það fékkst ekki í gegn, og því situr eftir að lögin leyfðu ekki gengistryggingu íslenskra krónulána.


Tengdar fréttir

Vissi að lánin væru ólögleg fyrir níu árum

Framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja virðist hafa verið fullkunnugt um að gengistrygging íslenskra lána væri brot á lögum - í bréfi sem hann sendi alþingi fyrir níu árum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×