Erlent

Spennan færist í aukana á Kóreuskaga

Hermenn Suður-Kóreu í varðstöð við Gangneung, austur af Seoul, höfuðborg landsins. Í gær hótaði Norður-Kórea að stöðva alla umferð um landamæri ríkjanna og skjóta á hátalara sem Suður-Kórea notar til að útvarpa áróðri yfir í norðrið. Fréttablaðið/AP
Hermenn Suður-Kóreu í varðstöð við Gangneung, austur af Seoul, höfuðborg landsins. Í gær hótaði Norður-Kórea að stöðva alla umferð um landamæri ríkjanna og skjóta á hátalara sem Suður-Kórea notar til að útvarpa áróðri yfir í norðrið. Fréttablaðið/AP

„Þetta var óviðunandi ögrun af hálfu Norður-Kóreu og alþjóðasamfélagið verður að sýna ábyrgð og bregðast við,“ sagði Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Seúl, höfuð-borg Suður-Kóreu, í gær.

Norður-Kórea hótaði því að stöðva alla umferð um landamæri ríkjanna inn á iðnaðarsvæði á landamærum þeirra. Að sögn yfirvalda í Suður-Kóreu var átta embættismönnum á verksmiðjusvæði í landamæraborginni Kaesong í Norður-Kóreu vikið úr landi. Spennan í samskiptum ríkjanna á rætur að rekja til þess að suður-kóresku herskipi var sökkt í lok mars. Í síðustu viku komst rannsóknarteymi að þeirri niðurstöðu að norður-kóreskur kafbátur hefði sökkt því en 46 skipverjar létu allir lífið í árásinni.

Suður-Kórea hefur brugðist við tíðindunum með því að hætta viðskiptum við nágrannann í norðri, hefja áróðursstríð á landamærunum og hindra umferð norður-kóreskra flutningaskipa.

Bandaríkjamenn hafa sagt að sannanir fyrir því að Norður-Kóreumenn séu sekir um að hafa sökkt herskipinu Cheonan séu nægilega sterkar og hafa stutt við bakið á Suður-Kóreumönnum. Ráðamenn Kína, aðalbandamanns Suður-Kóreu, hafa hins vegar sagt að þeir séu enn að skoða gögnin og hafa lítið gert nema hvetja ríkin til þess að grípa ekki til neinna aðgerða.

„Ég tel að Kínverjar skilji alvarleika málsins og séu tilbúnir til þess að hlusta á áhyggjuraddir Suður-Kóreumanna og Bandaríkjanna,“ sagði Hillary sem sótti Kína heim áður en hún hélt til Seúl. Suður-Kóreumenn vilja að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fjalli um árásina á herskipið og hafa stuðning Bandaríkjamanna í því.

Norður-Kórea hefur vísað því alfarið á bug að hafa sökkt herskipinu og látið í veðri vaka að refsiaðgerðir gætu endað með stríði. Brugðist yrði til varnar gegn sálfræðihernaði Suður-Kóreu og skipum og flugvélum ríkisins meinað að fara um yfirráðasvæði Norður-Kóreu.

Tæknilega hafa Suður- og Norður-Kórea verið í stríði síðan Kóreustríðinu 1950 til 1953 lauk vegna þess að því lauk ekki með friðarsamningi heldur vopnahléi. Samskipti ríkjanna bötnuðu mjög fyrir um tíu árum en hafa versnað síðan Lee Myung-bak varð forsætisráðherra Suður-Kóreu árið 2008.

sigridur@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×