Lífið

Hægt að bæta samfélagið

thordis@frettabladid.is skrifar
Gunnar Hersveinn rithöfundur mun í nýrri bók fjalla um gildin tólf sem fulltrúar þjóðfundarins völdu í Laugardalshöll í fyrrahaust.
Gunnar Hersveinn rithöfundur mun í nýrri bók fjalla um gildin tólf sem fulltrúar þjóðfundarins völdu í Laugardalshöll í fyrrahaust. Fréttablaðið/Arnþór

„Bókin er skrifuð fyrir almenning á mannamáli um þau tólf gildi sem 1.500 manns á þjóðfundinum 2009 völdu til að efla með sjálfum sér eða til að breyta samfélaginu til betri vegar," segir Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, sem situr nú við skriftir á bók sem Skálholtsútgáfan gefur út í haust um gildin tólf.

„Ég upplifði stemninguna sem á þjóðfundinum ríkti og það var ný reynsla og spennandi að leitað væri að visku fjöldans. Því er óvenjulegt að skrifa bók sem búið er að velja efnið í, en mitt hlutverk er að finna nýja nálgun á þessi gildi og tengja inn í framtíðina til endurreisnar samfélagsins," segir Gunnar Hersveinn og bætir við að bókin muni nýtast bæði einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum.

„Ég veit að fyrirtæki og stofnanir fóru af stað eftir þjóðfundinn og vildu innleiða gildin í starf sitt og því verður þetta handbók til þess líka, en samt sem áður opin því ekkert er nokkurn tímann endanlegt og eilífðarverkefni að vinna með þessi gildi. Því eiga lesendur að skapa um þau umræðu og bæta einhverju við," segir Gunnar Hersveinn.

Gildin sem nutu mest fylgis á þjóðfundinum voru heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni og lýðræði. Einnig fjölskyldan, jöfnuður og traust.

„Þessi gildi töldu þjóðfundarfulltrúar að hefði skort hingað til og heiðarleiki valinn mikilvægastur. Svona hópur af gildum er svo alltaf valinn tímabundið; eitthvað sem samfélagið þarfnast næstu árin, og mitt markmið að finna eitthvað nýtt í kringum þau í staðinn fyrir að telja upp það sem áður hefur verið sagt," segir Gunnar Hersveinn sem hefur langa reynslu af skrifum bóka um gildi og hefur áður skrifað bækurnar Gæfuspor - gildin í lífinu og Orðspor - gildin í samfélaginu.

„Samt er vandasamt að skrifa bók sem á líka að heppnast, en ég tel mig hafa ágætan grunn og hef reynt að æfa mig í að skrifa á skiljanlegu máli. Ég nota ákveðna aðferð til að nálgast þetta, tengi hugtökin saman og reyni að finna mælikvarða og hindranir svo að gildin virki sem best."

Hann segir ekki hafa komið á óvart að heiðarleiki hafi lent efstur á blaði.

„Ég hef skoðað vel hvaða gildi hafa verið vinsælust í gegnum tíðina og þar hefur heiðarleiki alltaf verið verið mjög ofarlega á baugi. En við segjum oft heiðarleiki þótt við kunnum hvorki né vitum hvernig við eigum að innleiða hann, rækta með okkur eða efla hann. Bókin er því ætluð til hjálpar þeim sem vilja stíga skrefið lengra. Þá mun ég einnig fjalla um önnur gildi sem mér finnst vanta, eins og nægjusemi, því gildi þjóðfundarins voru algjör grunnhugtök þótt ánægjulegt hafi verið að sjá sjálfbærni og jafnrétti þeirra á meðal," segir Gunnar Hersveinn, sannfærður um að saman getum við gert Ísland að betri stað til að lifa á.

„Það er vel hægt að bæta samfélagið og markmið með bókinni er að vera verkfæri þeirra sem hafa áhuga á einmitt því. Fyrir aðeins fimm árum þótti hallærislegt að vilja gera eitthvað til að bæta samfélagið en ég vona að sá tími sé liðinn. Þá snerist allt um að bæta sjálfan sig og ná árangri í lífinu fyrir sig, en kenningin í bókinni segir að enginn verði fullþroska maður fyrr en hann stígur út úr innsta hring og vill gera eitthvað fyrir aðra."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×