Viðskipti innlent

Löndunarbann hefði engin áhrif

Á fundi í Brussel. Richard Benyon, sjávarútvegsráðherra Bretlands, á tali við Júlíu Damanaki, fiskveiðistjóra Evrópusambandsins, áður en fundur hófst í sjávarútvegs- og landbúnaðarráði Evrópusambandsins á mánudag.nordicphotos/AFP
Á fundi í Brussel. Richard Benyon, sjávarútvegsráðherra Bretlands, á tali við Júlíu Damanaki, fiskveiðistjóra Evrópusambandsins, áður en fundur hófst í sjávarútvegs- og landbúnaðarráði Evrópusambandsins á mánudag.nordicphotos/AFP

„Við vísum ábyrgðinni á þeirri ofveiði sem fyrirsjáanleg er á næsta ári alfarið á hendur Evrópusambandinu og Noregi,“ segir Tómas H. Heiðar, formaður samninganefndar Íslands í makrílviðræðum við ESB og Noreg.

Tómas segir allt útlit fyrir að Ísland og Færeyjar setji sér nú einhliða kvóta, rétt eins og Norðmenn og Evrópusambandið hafa gert. „Staðan verður því áfram sú sama og verið hefur á þessu ári.“

Nú í vikunni slitnaði upp úr viðræðum ESB og Noregs við Færeyinga, rúmlega hálfum mánuði eftir að upp úr viðræðum við Íslendinga slitnaði þegar ljóst var orðið að ekkert yrði af samkomulagi.

Að loknum þeim fundi sendi sjávar­útvegsráðuneytið frá sér tilkynningu um að hlutdeild Íslands í kvótanum yrði óbreytt á næsta ári, eða 16 til 17 prósent af þeim 646 þúsund tonna kvóta sem vísindamenn telja ráðlegan.

Norðmenn og Evrópusambandið tóku í gær þá ákvörðun að skammta sjálfum sér samtals níutíu prósent af heildarkvótanum, sem þýðir að á næsta ári verður samtals veitt töluvert umfram ráðlagðan kvóta.

„Með þessu er ekkert tillit tekið til lögmætra hagsmuna Íslands og Færeyja, sem stunda lögmætar veiðar úr stofninum,“ segir Tómas. „Ekki er heldur tekið neitt tillit til Rússa, sem veiða einnig úr þessum stofni í Síldarsmugunni.“

Í gær var svo í erlendum fréttamiðlum fullyrt að Maria Damanaki, fiskveiðistjóri Evrópusambandsins, íhugaði refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum. Þær refsiaðgerðir myndu felast í löndunarbanni innan Evrópusambandsins á makríl frá þessum löndum.

„Við höfum ekkert við það að athuga,“ sagði Tómas um þessar refsiaðgerðir, „enda gilda hér á landi sömu reglurnar. Samkvæmt íslenskum lögum er það þannig að við heimilum ekki löndun erlendra skipa hér á landi á afla úr deilistofnum sem ósamið er um. Þetta er því bara spegilmynd af því sem gildir hér á landi.“

Löndunarbannið myndi hvort eð er ekki hafa nein áhrif á veiðarnar hér á landi.

„Menn hafa landað aflanum á Íslandi og unnið hann hér, enda hafa veiðar okkar nánast alfarið verið innan okkar lögsögu.“

gudsteinn@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×